139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

lausn á skuldavanda heimilanna.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst vænt um að heyra hvað formaður Sjálfstæðisflokksins hefur miklar áhyggjur af skuldavanda heimilanna í ljósi þess hvaða tillögur þeir hafa sjálfir flutt. Ég get ekki séð að þeir hafi miklar áhyggjur af skuldavandanum vegna þess að það er aðeins ein tillaga og hún er að lengja í lánum. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það eru sú tillaga sem sett var fram síðast.

Mér er ljúft að svara spurningum hv. þingmanns. Það er vika síðan við héldum fund í Þjóðmenningarhúsinu með öllum þeim aðilum sem að þessu máli hafa komið að undanförnu, það var ágætisfundur. Þar voru lagðar fram tillögur sem við kynntum í lokin að við mundum skoða, þ.e. að finna einhverja samsetta lausn á þeim tillögum sem þá munu liggja fyrir. Á þeirri viku sem liðin er höfum við átt þrjá fundi með lífeyrissjóðunum og bönkunum til að reyna að nálgast lausn á þessum málum. (Gripið fram í.) Þessir fundir hafa verið ágætir en því miður finnst mér enn vera of langt á milli sérstaklega bankanna og þeirra leiða sem stjórnvöld vilja fara í þessu máli. Það mun væntanlega skýrast í dag eða á morgun hvort við náum yfirleitt saman í þessu máli með bönkunum sem er mikilvægt og ég hef enn vonir til þess þó að ég verði að segja að þær hafi dofnað á undanförnum tveimur dögum.

Fyrir liggur beiðni frá Hreyfingunni og Framsóknarflokknum um að funda með fimm manna ráðherrahóp sem hefur fjallað um þessi mál. Við höfum verið að reyna að komast nær lausninni með bönkunum og lífeyrissjóðunum áður en við kölluðum til fundarins en ég á von á því að hann geti orðið í þessari viku, vonandi, eða um helgina. Að sjálfsögðu munum við kynna stjórnarandstöðunni málin og fara yfir það með þeim (Forseti hringir.) hvaða lausnir eru fyrir hendi þegar við höfum átt þau samtöl með bönkunum og lífeyrissjóðunum sem vonandi lýkur núna á næstu dögum.