139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

lausn á skuldavanda heimilanna.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Já, ég hef miklar áhyggjur af stöðu heimilanna. Ég hef miklar áhyggjur af greiðslu- og skuldavanda þeirra. Það brennur á öllum í þjóðfélaginu að fá markvissar tillögur frá þinginu sem leysa vandann, sem koma fólki til hjálpar. Ég frábið mér að verið sé að rangtúlka tillögur okkar sjálfstæðismanna sem eru settar fram í 41 lið, þar af er sérstakur kafli sem snýr að heimilunum í landinu. Það er ekkert nema útúrsnúningur hjá hæstv. forsætisráðherra að segja að þær feli einungis í sér lengingu lána.

Mér finnst hæstv. forsætisráðherra sýna bönkum og lífeyrissjóðum alveg ótrúlegt langlundargeð. Fólk í þessu landi vill ekki horfa á forsætisráðherra bíða eftir svörum frá bönkum og lífeyrissjóðum núna tveimur árum eftir hrunið. Fólk bíður eftir aðgerðum og ef þeir aðilar hafa ekki látið segjast fram til þessa þarf að segja þeim hvernig þetta verður gert, með reglum (Forseti hringir.) og lögum héðan frá Alþingi. Fólkið í landinu er ekki að bíða eftir lífeyrissjóðunum eða eftir bönkunum. Það bíður eftir aðgerðum frá Alþingi.