139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ný þjóðhagsspá og afgreiðsla fjárlaga.

[10:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Á síðustu vikum hafa komið fram endurmetnar spár um þróun efnahagsmála á næsta ári. ASÍ reið á vaðið 20. október með sinni spá, síðan OECD og Seðlabankinn og núna í fyrradag kom Hagstofan með sína nýju þjóðhagsspá. Þó að það sé örlítill munur á milli þess hvernig þessir sérfræðingar sjá þróunina á næsta ári er einn mjög dökkur samhljómur í allri þeirra nálgun að mati á horfum næsta árs. Það er áfram spáð niðursveiflu og alveg ljóst að ef þær spár ganga eftir, sem í sumum tilfellum eru metnar töluvert bjartsýnar, horfir töluvert illa í afkomu þjóðarbúsins á næsta ári.

Ég vil tengja þessar spár við umræðu um fjárlög næsta árs og eiga orðastað við forsætisráðherra í því ljósi að á síðustu vikum frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram hafa verið mjög harðar umræður um það og menn gefið eftir, jafnvel af hálfu ríkisstjórnarinnar sem leggur fjárlagafrumvarp sitt fram þannig að þar liggur fyrir að gefið verði eftir gagnvart útgjaldaniðurskurði. Til viðbótar liggur fyrir í ljósi þessara hagspáa að tekjur ríkissjóðs muni á næsta ári dragast saman. Það er óhjákvæmilegt. Vandinn sem út af stendur er erfiðari við að glíma í ljósi þeirrar staðreyndar sem ég hef getið um hér.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess sem ég hef hér rakið, og ekki síst í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hæstv. ráðherra hefur gefið, hvort til greina komi að hennar áliti að afgreiða fjárlög næsta árs með meiri halla en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem við höfum haft til meðferðar í fjárlaganefnd síðustu vikurnar.