139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ný þjóðhagsspá og afgreiðsla fjárlaga.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Vissulega er staðan erfiðari, virðulegi forseti, þegar hagvaxtarspáin er lægri en við gerðum ráð fyrir en ég fullvissa hv. þingmann um að það er ekkert sem við ráðum ekki við. Við munum skila viðunandi niðurstöðu núna við fjárlagaafgreiðsluna. Þingmaðurinn talar um fjárfestingar sem er auðvitað mikils virði að við glæðum, eitt meginviðfangsefnið er að ná hér upp fjárfestingum, ég tala nú ekki um að fá inn erlendar fjárfestingar o.s.frv., og það er nokkur aukning í atvinnuvegafjárfestingu jafnvel þó að Helguvík frestist til 2012. Það er ýmislegt annað í farveginum sem við getum horft jákvæðum augum til, sérstaklega ef við náum samningum við lífeyrissjóðina sem við höfum unnið að á undanförnum mánuðum að því er varðar vegaframkvæmdir. Þar erum við að tala um 30 milljarða kr. í vegaframkvæmdir sem mun (Gripið fram í.) skila sér á næstu árum. Því miður virtist (Forseti hringir.) vera eitthvert bakslag í því máli í gær en við skulum sjá til hvort ekki sé hægt að fara í þetta. Mér finnst með ólíkindum að lífeyrissjóðirnir komi ekki ákveðnar inn í fjárfestingu í þessu máli en þeir hafa sýnt (Forseti hringir.) á undanförnum vikum.