139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður víkur að, staða margra byggðarlaga er mjög háð fiskveiðum og því að hægt sé að stunda þær frá viðkomandi byggðarlögum og vinna fiskinn á þeim svæðum eins og kostur er.

Hv. þingmaður vék að Flateyri og viðlíka byggðarlögum. Kvótinn var fluttur þaðan fyrir nokkru þannig að þau lög sem sett voru í fyrravor um heimild til að grípa inn í sölu á aflaheimildum frá byggðarlagi sem væri yfir einhverju tilteknu marki — þessi flutningur átti sér stað áður en Alþingi samþykkti í vor að það væri tilkynningarskylt og hægt að grípa inn í ef um alvarlegan og ógnvekjandi flutning á aflaheimildum frá byggðarlögum er að ræða. Á Flateyri var komið til móts við það með þeirri lagaumgjörð sem núna er fyrir hendi, þ.e. í gegnum byggðakvóta með því að hækka þar almenn viðmið um íbúafjölda til að eiga þar aðgang.

Varðandi endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni sjálfri er vinna við það komin í fullan gang í ráðuneytinu eins og hv. þingmaður vék að. Þar er búið að setja niður skipulag vinnunnar og starfsmenn ráðuneytisins eru þar í vinnulegu forsvari fyrir þar skilgreinda þætti þannig að það hefur skapað heila heild. Það er á fullri ferð. Þótt ég sé allur af vilja gerður og vildi gjarnan að frumvarpið kæmi fram fyrir jól sé ég ekki að það sé raunhæft (Forseti hringir.) en strax í upphafi þings eftir áramót vonast ég til þess að það geti komið fram.