139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO.

[11:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini þessari spurningu til hæstv. forsætisráðherra þar sem hún er leiðtogi ríkisstjórnarinnar og langar mig að ræða málefni NATO við hana.

Ástæða þess að ég kem í ræðustól er að við þingmenn og margir aðrir erum svolítið áttavilltir í því hver raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar er gagnvart NATO og því samstarfi sem við erum í þar. Því langar mig í fyrsta lagi að spyrja hvort það sé óbreytt viðhorf til þessa samstarfs, til NATO, en miðað við þær fréttir sem við höfum fengið er það svolítið ruglingslegt. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um það ekki síst vegna þess fundar sem hæstv. forsætisráðherra sótti ásamt fleirum nú fyrir skömmu.

Mig langar að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra varðandi sama mál: Er einhugur meðal allra NATO-ríkjanna um þá stefnu sem kynnt og mörkuð hefur verið í varnarmálum upp á síðkastið?

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar: Er íslenska ríkisstjórnin, og þar með íslenska ríkið, aðili að grundvallarstefnu NATO? Það er mjög mikilvægt að það komi fram í þinginu því að það hafa verið svolítið misvísandi upplýsingar eða fréttir af þeim fundi sem fram fór í Portúgal, að ég held, eða einhvers staðar þar suður frá. Því er mikilvægt (Forseti hringir.) að ráðherra upplýsi okkur um málið.