139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að takmarka dragnótaveiðar með lokun á sjö fjörðum er hvorki byggð á faglegum vinnubrögðum né vistfræðilegum rökum. Ákvörðunin virðist eingöngu byggjast á órökstuddum fullyrðingum og upphrópunum um skaðsemi dragnótaveiða frá trillukörlum sem margir hverjir fara sjaldan á sjó.

Ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er algjörlega óskiljanleg, sérstaklega í ljósi þess að með ákvörðun sinni setur hæstv. ráðherra afkomu fjölda útgerða og fjölskyldna í uppnám. Dragi hæstv. ráðherra ekki ákvörðun sína til baka má nefna sem dæmi að stærsta útgerðin á Hvammstanga mun leggjast af og margar fjölskyldur missa lífsviðurværi sitt með ófyrirséðum afleiðingum. Þessar staðreyndir virðast ekki hafa nein áhrif á hæstv. ráðherra, heldur forherðist hann enn frekar og hefur í ræðu og riti boðað frekari aðgerðir í þessa veru.

Virðulegi forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að vekja athygli hæstv. ráðherra á niðurstöðum úr nýloknu rækjuralli Hafrannsóknastofnunar en þar kemur fram að í Húnaflóa sé magn ýsu langt yfir meðaltali áranna 1996–2010, og magn þorsks í Skagafirði hefur ekki verið meira síðan á árinu 2002. Þessar niðurstöður eru sérstaklega athyglisverðar vegna þess að á báðum þessum svæðum hafa veiðar með vistvænni dragnót verið stundaðar um árabil. Niðurstöðurnar eru einnig þvert á þær fullyrðingar að umrædd svæði séu nánast fisklaus eftir dragnótaveiðar.

Ég spyr: Duga engar vísbendingar og vísindalegar niðurstöður til að hæstv. ráðherra dragi ákvarðanir sínar til baka og hætti þessari dæmalausu aðför að dragnótaveiðum?

Virðulegi forseti. Máli mínu til frekari stuðnings langar mig að vitna í grein sem tveir óháðir vísindamenn, þau Haraldur A. Einarsson, veiðarfærasérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, og Guðrún G. Þórarinsdóttir, doktor í sjávarlíffræði, birtu eftir að hæstv. ráðherra tilkynnti ákvörðun sína um takmarkanir á dragnótaveiðum. Þau segja, með leyfi forseta:

„Þegar menn hafa mikla trú á einhverju kemur fyrir að rökhyggja og gagnrýnin hugsun víkja. Vísindamönnum, sem gjarnan eru fengnir til að veita álit varðandi málefni, er ýmist hampað, henti þeirra niðurstöður málefninu, eða þeir sagðir „taka hlutina úr samhengi“, henti niðurstöðurnar ekki. Skýrt dæmi um slíka hegðun má sjá í „röksemdafærslum“ sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis varðandi fyrirhugaðar lokanir á dragnótaveiðum í sjö fjörðum við Ísland.

Dragnótin hefur lengst af verið gagnrýnd sem óvistvænt veiðarfæri hér við land. Gagnrýnin er í langflestum tilfellum órökstuddar fullyrðingar en ekki staðreyndir sem byggðar eru á rannsóknum.

Í kjölfar undirskriftasöfnunar gegn dragnótaveiðum í Skagafirði var farið fram á það við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið árið 2008 að gerð yrði rannsókn á umhverfisáhrifum dragnótar á lífríki botns í Skagafirði. […]

Farið var í umrædda rannsókn á áhrifum dragnótaveiða á lífríki botns í innanverðum Skagafirði í október 2008. Við myndatökur kom í ljós að á því svæði sem lokað hafði verið fyrir dragnót um áraskeið var […] enginn sjónrænn munur á milli þessa friðaða svæðis og þess sem var undir álagi frá dragnót. […]

Úr þessari litlu rannsókn voru niðurstöður birtar í skýrslu á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ekki voru allir ánægðir með niðurstöðurnar þar sem þær voru ekki á þá lund sem stofnunin vildi. Núverandi sjávarútvegsráðherra brá þá á það ráð að setja á þriggja manna nefnd til að fara í gegnum skýrsluna og skila greinargerð um þetta mál sem ráðuneytið gæti stuðst við. Þeirri greinargerð hefur þó ekki enn verið skilað. […]

Við ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á lokunum svæða fyrir dragnót, var ekki haft samráð við þá sérfræðinga sem kynnu eitthvað að hafa um málið að segja.“

Virðulegi forseti. Ég vil í lok máls míns beina fyrirspurnum til hæstv. ráðherra:

1. Hvaða vistfræðileg rök eru fyrir takmörkunum á dragnótaveiðum?

2. Hvernig getur ráðherra kallað það fagleg vinnubrögð þegar ekkert mark er tekið á vísindalegum niðurstöðum, heldur eingöngu á órökstuddum fullyrðingum?

3. Telur ráðherra það góða stjórnsýslu að skipa son sinn í nefnd til að fara yfir skýrslu Hafrannsóknastofnunar um áhrif dragnótaveiða á lífríkið, sérstaklega (Forseti hringir.) í ljósi þess að hann hafði áður sem sveitarstjórnarmaður í Skagafirði ályktað gegn strandveiðum?

Ég vænti þess, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra svari þessu skilmerkilega eins og hans er von og vísa.