139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:32]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Áhyggjur manna af áhrifum þessa öfluga veiðarfæris, dragnótarinnar, eru ekki nýjar af nálinni. Áður hefur verið gripið til lokana afmarkaðra svæða fyrir dragnótaveiðum í gegnum tíðina þannig að það er ekki fullkomlega rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé dæmalaus aðgerð að þessu sinni.

Nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn, hafa t.d. sett sér þá stefnu að þetta veiðarfæri skuli frekar nota við stærri stofna en staðbundna stofna á viðkvæmum svæðum og það er í sjálfu sér eðlilegt að íslensk stjórnvöld hafi sambærilegar áhyggjur af hugsanlegum áhrifum þessa veiðarfæris á lífríki sjávar. Um það eru ýmsar vísbendingar, ekki aðeins vísindalegar heldur líka frásagnir sjómanna.

Ég vek t.d. athygli á því að Landssamband smábátasjómanna hefur lýst ánægju með þá ákvörðun hæstv. ráðherra að loka ákveðnum svæðum fyrir dragnótaveiðum. Nokkur sveitarfélög hafa gert það sömuleiðis, Skagafjörður, Skagaströnd, Seyðisfjarðarkaupstaður og hugsanlega fleiri.

Hafrannsóknastofnun gerði afmarkaða athugun á áhrifum dragnótaveiða í Skagafirði á sínum tíma. Hún setti sjálf þann fyrirvara að sú rannsókn væri á afmörkuðu litlu svæði, gögnin takmörkuð, og það væri þar af leiðandi vafasamt að ætla að yfirfæra niðurstöður þeirrar rannsóknar á önnur svæði. Ég get ekki tekið undir að það séu engin vísindaleg rök fyrir því að hafa áhyggjur af áhrifum dragnótaveiða á lífríki, þvert á móti held ég að það væri vísindaleg nálgun að hvetja til frekari rannsókna í þessu efni og vera mjög á varðbergi (Forseti hringir.) varðandi þennan þátt íslenskra veiða eins og mér sýnist hæstv. (Forseti hringir.) sjávarútvegsráðherra gera með sínum aðgerðum. Það er að sjálfsögðu lífríkið sem hlýtur að njóta vafans.