139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð þó að segja á þeim stutta tíma sem ég hef að málflutningur hæstv. ráðherra er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum. Hann kemur hér upp og býður manni upp á það þegar maður hefur rætt efnislega um eitthvert málefni að lesa upp úr reglugerðum og lögum sem ég get sjálfur gert á netinu. Það er alveg hreint með ólíkindum.

Síðan kemur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og líkir vísindalegum rannsóknum sem fram fóru í þessu sambandi við fullyrðingar um tóbaksreykingar. Hvers konar málefnafátækt er það? Ég verð þó að segja að eitt sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði er alveg rétt, gögnin sem byggja á þessum vísindalegu rannsóknum eru ekki mjög mikil eða nægjanleg. Þess vegna eiga menn að leyfa dragnótaveiðunum að njóta vafans þar til sýnt hefur verið fram á annað. Það er það sem við köllum eftir. Ef dragnótamenn sjá fram á að dragnótin hafi skaðleg áhrif, sem enginn hefur sýnt fram á, mun enginn mæla gegn því að þær verði takmarkaðar, hv. þingmaður. Það er það sem við höfum sagt.

Hv. þingmaður treystir sér ekki til að verja vinnubrögðin enda eru þau náttúrlega alveg hreint ótrúleg. Það eru teknar einhverjar ákvarðanir sem skipta máli fyrir afkomu fjölda fjölskyldna í landinu, sem kippa grundvellinum undan afkomunni og það skiptir bara engu máli að mati hæstv. ráðherra. Það er hreint með ólíkindum.

Það er eitt sem hæstv. ráðherra sagði sem er rétt, þetta er nefnilega í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og hún er sú að leggja niður störf — að leggja niður störf.

Ég ítreka spurningu mína og ég æski þess að hæstv. ráðherra hlusti núna því að ég óska eftir mjög einföldu svari frá honum: Telur hæstv. ráðherra það góða stjórnsýslu að skipa son sinn í nefnd til að fara yfir skýrslu Hafrannsóknastofnunar um afdrif dragnótaveiða á lífríki, sérstaklega í ljósi þess að hann hafði áður sem sveitarstjórnarmaður í Skagafirði ályktað gegn dragnótaveiðum? Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði áðan að þegar sú ályktun var gerð voru engar vísindalegar niðurstöður sem fylgdu því, heldur hafi sú ákvörðun bara verið tekin út í loftið. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari spurningu minni annaðhvort með jái eða neii.