139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[11:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég beindi spurningum til hæstv. ráðherra og tvítók eina spurningu sem ég ætlaðist til að hann mundi svara. Hæstv. ráðherra virðir þingið ekki það mikils að hann sjái sér fært að svara þessum spurningum. Því skora ég á hæstv. ráðherra og koma upp og svara spurningu minni efnislega. Spurningin er einfaldlega þessi: Telur hæstv. ráðherra það góða stjórnsýslu að skipa son sinn í nefnd til þess að fara yfir skýrslu Hafrannsóknastofnunar og skila greinargerð um hana, þar sem sonur hæstv. ráðherra hafði áður greitt atkvæði sem sveitarstjórnarmaður í Skagafirði og skorað á ráðuneytið að takmarka dragnótaveiðar?

Að mínu viti er það algjörlega forkastanlegt. Ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra komi hér upp og segi einungis já eða nei. Þótt enginn vilji verja hæstv. ráðherra yfirleitt hlýtur hann alla vega að geta varið sig sjálfur.