139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framsögu. Það er ágætt að málið er komið fram þannig að við getum byrjað að ræða það. Hins vegar vil ég leyfa mér að gagnrýna hversu seint það kemur, það er mjög bagalegt að þetta komi fram rétt undir mánaðamótin nóvember/desember þegar við erum á fullu í fjárlagavinnunni og þessi yfirfærsla á að eiga sér stað um áramót. Það hefur legið fyrir í allnokkurn tíma, allt frá því að viljayfirlýsing var undirrituð í mars 2009 um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga, að þetta yrði framkvæmt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið faglegra af hálfu ráðuneytisins að leggja frumvarpið fyrr fram og koma síðan með breytingartillögur við það, jafnvel í félagsmálanefnd sem ekki er ókunn þeim vinnubrögðum að breyta örlítið frumvörpum sem stafa frá félagsmálaráðuneytinu.