139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sjónarmið, sem er vissulega réttmætt, að málið sé seint fram komið og að félags- og tryggingamálanefnd fái ekki mikinn tíma til að vinna það er það auðvitað rétt, en málið hefur verið í vinnslu í næstum því tvö ár og félags- og tryggingamálanefnd hefur á hverjum tíma auðvitað alltaf verið í stakk búin til að spyrjast fyrir um málið og gera þar kannanir á því. Ef ég man rétt hefur í tvígang verið mætt á fund nefndarinnar og henni gerð grein fyrir framgangi málsins. Það er því fullkomlega á valdi nefndarinnar auðvitað að fylgjast með samningaviðræðunum. Eðli málsins samkvæmt er hér um að ræða mál sem alltaf hlýtur að koma fullbúið inn til þingsins vegna þess að það lýtur að samningum við sveitarfélög og hagsmunasamtök. Málið kemur auðvitað innpakkað til þingsins.

Varðandi það hvort notendur hafi fengið nægilega aðkomu að málinu er því til að svara að ég varð var við það í febrúar og mars sem þáverandi félagsmálaráðherra að það var ótti meðal hagsmunaaðila og þeim þótti þeir ekki hafa verið upplýstir nægjanlega. Þess vegna breytti ég um kúrs í málinu og veitti þeim aðild að verkefnisstjórninni (Forseti hringir.) þannig að engu yrði ráðið um þennan málaflokk frekar nema með (Forseti hringir.) fullri aðkomu þeirra og fullum rétti þeirra til þátttöku. Sú breyting varð til mikilla bóta, hjálpaði mjög (Forseti hringir.) og var mjög jákvæð til þess að gera okkur kleift að koma málinu í höfn.