139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að málið sé í farvegi. Ég vil líka árétta spurninguna hvort ekki sé tilhlýðilegt að ráðuneytið komi að þessu í ljósi forsögunnar og í ljósi ákveðinnar tortryggni sem virðist ríkja milli Sólheima og samningsaðila vegna langvarandi samningsleysis. Er ekki til mikils að vinna að tryggja það á þessum tímapunkti að rekstrargrundvöllur Sólheima verði tryggður til framtíðar?

Ég sagði áðan að þetta væri ákveðinn prófsteinn í mínum huga. Eins mikið og ég er fylgjandi því að flytja málaflokkinn til sveitarfélaganna þá er ég líka mikill áhugamaður um að það ríki fjölbreytni í þjónustu við fólk með fötlun. Mér finnst samfélag eins og Sólheimar vera ákveðinn liður í þessari mikilvægu fjölbreytni sem við eigum að verja.