139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:17]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að samfélagið á Sólheimum fái dafnað áfram. Það er mikilsvert. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að samningar náist milli sveitarfélagsins og Sólheima á eðlilegum forsendum þannig að jafnræði sé tryggt. Sömu lögmál gilda auðvitað um framlögin til Sólheima og til annarra úrræða fyrir fatlað fólk og annarra þjónustulausna.

Ég held að ráðuneytið komi hér eftir að málinu fyrst og fremst sem eftirlitsaðili enda ekki eðlilegt að láta eitt gilda um Sólheima umfram önnur þjónustuúrræði í landinu. Ég held að það skorti í sjálfu sér ekki trúnað milli sveitarfélagsins, þjónustusvæðisins og Sólheima. Viðsemjandinn hefur hingað til verið félagsmálaráðuneytið þannig að ef trúnaðarbrestur verður hlýtur hann að vera milli ráðuneytisins og Sólheima. Ég held að það sé ágætt að málið fari inn í það ferli að sama gildi um Sólheima og önnur þjónustuúrræði. Það er grundvallarreglan að fullt jafnræði sé tryggt. Ég ítreka að það er mikilvægt að Sólheimar fái (Forseti hringir.) þrifist og dafnað. Það er lagt upp með að það eigi að vera vandalaust.