139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki hagsmunir fatlaðs fólks á Íslandi að félagsmálanefnd fái örfáa daga til að fjalla um þetta mál. Það eru ekki hagsmunir þeirra að þetta sé keyrt í gegn á örfáum dögum áður en breytingarnar taka gildi. Það var virkilega þannig að stéttarfélögin stöðvuðu þetta. Það er ekki þannig að félagsmenn, starfsmenn, geti valið sér stéttarfélag, það er ekki þannig. Þeim ber að borga til viðkomandi opinbers stéttarfélags hvort sem þeir vilja vera í félaginu eða ekki. Þannig eru nefnilega lögin um starfsmenn ríkisins og það er vandamálið.

Ég skora á hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að fara nú að brjóta upp kerfið með skyldu manna til að vera í félögum. Það hefur verið nefnt búnaðargjald og iðnaðarmálagjald o.s.frv., en skyldu opinberra starfsmanna til að borga til ákveðins stéttarfélags, hvort sem þeir vilja eða ekki, á að afnema. Ég hef margoft flutt um það tillögur en það hefur aldrei náð fram að ganga.