139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:28]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að eftirlitsstofnunin þarf að vera sjálfstæð og getur ekki verið hluti af ráðuneytinu er sú að ráðuneytið er ekki hlutlaust. Nú hefur t.d. undanfarna daga nokkuð verið rætt um málefni Árbótar, sem er meðferðarheimili. Það var með samning við Barnaverndarstofu sem lýtur stjórnsýslulegu forræði ráðuneytisins. Ráðuneytið, ef það á að hafa eftirlit með framkvæmd samningsaðila, er þá í sjálfu sér orðinn hluti af samningssambandinu og ber ábyrgð.

Það er mikilvægt, þegar við horfum á dæmin eins og úr Breiðavík þá er ástæðan fyrir því að starfsemin í Breiðavík viðgekkst svona lengi og misnotkunin sú að það var sami aðili sem tók ákvörðun um að senda börnin þangað og hafði eftirlit með því hvernig að þeim væri búið. Þar af leiðandi hafði viðkomandi hagsmuni af því að ekki kæmist upp um mistökin sem hann hafði gert. Þannig kerfi má aldrei aftur verða til. Það er loforðið sem ég gaf í fyrrahaust að yrði og það er það sem hæstv. núverandi félags- og tryggingamálaráðherra er ákveðinn í að standa við. (Forseti hringir.) Að sett verði á fót sjálfstæð eftirlitsstofnun þannig að þetta verði aðskilið. Eftirlit með gæðum þjónustunnar og árangrinum af henni verði aðskilið frá ákvörðunum um að kaupa hana.