139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[13:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að þetta frumvarp er loksins komið fram og tek undir þá gagnrýni hjá mörgum hv. þingmönnum að það er mjög bagalegt að það skuli ekki hafa komið fyrr til umræðu í þinginu. Við vitum alveg hvernig tíminn er fram undan þar sem mikið er um að vera.

Það sem er þó kannski grátlegast við þetta er að það stóð ekki á samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig standa ætti að flutningi um málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þetta snerist einfaldlega um það, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á í lok ræðu sinnar hér á undan, hvaða stéttarfélag á að fá gjöldin af starfsmönnum. Það hefur fyrst og fremst tafið að þetta mál kæmist til þings. Maður veltir vöngum yfir því á hvaða stað við erum þegar við erum að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, og við erum öll sammála um að markmið þeirrar lagasetningar sé að standa betur við og að málefnum fatlaðra, að þá skuli erfiðasti hjallinn sem tókst að brúa vera samkomulag um það til hvaða stéttarfélags er greitt. Það mætti leiða hugann að því að þetta er nokkuð sem við verðum að komast upp úr. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal, það er mjög mikilvægt að afnema þessa skylduaðild að stéttarfélögum, frekar mætti fólk velja sér það stéttarfélag sem það vildi sjálft vera í. Það eru mörg dæmi um að félagsmenn eru í stéttarfélagi sem þeir vilja hugsanlega ekki vera í, heldur einhverju öðru. Það er mjög bagalegt að þetta komi svona seint inn í þingið.

Ég verð þó að segja, virðulegi forseti, að í ljósi reynslunnar og þeirrar miklu samstöðu sem hefur oft verið í hv. félagsmálanefnd treysti ég á að hv. félagsmálanefnd fari mjög vandlega og rækilega yfir þetta mál. 1. umr. er í sjálfu sér ekki mjög efnisleg og ekki djúp en ég minni samt á að við höfum áður farið með mál mjög hratt í gegnum þingið og þá hefur þingið gert mistök þannig að vítin eru til að varast þau.

Það sem er ánægjulegt við þetta frumvarp þar sem lagt er til að málefni fatlaðra fari frá ríki til sveitarfélaganna er að margir kostir eru við þá tilfærslu. Í fyrsta lagi færist þjónustan nær fötluðum og í öðru lagi fellur þjónusta um málefni fatlaðra undir eitt stjórnsýslustig sem gerir hlutina miklu skilvirkari og ætti að gera þá betri. Í þriðja lagi mun þetta styrkja starfsemi félags- og skólaþjónustu sveitarfélaganna úti á landsbyggðinni og hvar sem er. Það er margt gott í þessu máli.

Ég vil örlítið koma inn á tvö, þrjú atriði sem viðkoma þessu samkomulagi og ég tel hafa verið grunninn að þeirri góðu samstöðu sem náðist milli ríkis og sveitarfélaga. Það er gert ráð fyrir sameiginlegu endurmati á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar eins og kemur fram í skýringum með frumvarpinu. Þegar það liggur fyrir, eftir þrjú, fjögur ár, er skýrt í samningunum eins og hæstv. ráðherra upplýsti áðan í andsvari að sveitarfélögin munu ekki fá þær tekjur sem sannarlega eiga að fylgja málaflokknum. Við vitum öll að það er kannski ekki svo auðvelt að gera sér alveg grein fyrir því í upphafi málsins. Þar sem þetta er með þessum hætti tel ég að ekki muni ríkja neinn ágreiningur um þetta, það var mjög stórt skref til að þessi góða samstaða næðist um þetta málefni á milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin voru mörg hver brennd af mörgum þeim verkefnum sem voru færð frá ríki til sveitarfélaga og ég hef reyndar aldrei skilið að menn geri samninga á milli þessara stjórnsýslustiga um að færa málaflokk eða verkefni á milli og síðan þurfi menn að eyða löngum tíma í að reyna að finna akkúrat hina einu heilögu krónutölu sem á að fylgja því verkefni. Nær væri að gera eins og hér er gert, hér liggur alveg klárt fyrir hvert verkefnið er og það verður þá endurmetið út frá því hvort sveitarfélögin hafi af því meiri eða minni útgjöld en reiknað er með. Það tel ég til mikilla bóta og vera eitt af hinum miklu framfarasporum.

Virðulegi forseti. Í lok máls míns ítreka ég enn og aftur ánægju mína með að frumvarpið er komið fram. Ég tel þetta mikið heillaspor og vænti þess að tíminn eigi eftir að leiða það í ljós. Markmið allra er sameiginlegt, að bæta þjónustu við fatlaða í landinu og færa þjónustuna nær fötluðum, gera hana skilvirkari og betri. Ég tel að miðað við þau verkefni sem hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga á undanförnum árum og áratugum sé meðferð þessa máls alveg til fyrirmyndar. Það er mín skoðun eftir fyrstu yfirferð á málinu. Sem betur fer erum við eitthvað að læra í því, en við megum samt sem áður ekki láta það henda okkur aftur að einhver stéttarfélagsgjöld stoppi það af að mál komi með eðlilegum hætti inn í þingið og fái eðlilega umfjöllun.

Ég ítreka það enn og aftur að ég treysti á hv. félagsmálanefnd sem er þekkt að sínum góðu störfum og ég efast ekki um að við eigum eftir að ná mikilli samstöðu um þetta mál.