139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans og ræðu í þessu mikilvæga máli. Ég hjó eftir því í máli hæstv. ráðherra að hann er á þeirri skoðun að þessi þjónustusvæði og íbúafjöldinn á bak við hvert svæði gætu orðið einhvers konar leiðsögn um það hvernig sveitarfélögin eiga að líta út. Mig langar að fá nánari skýringu á þessu og hvort ég hafi skilið þetta rétt. Er það skoðun hæstv. ráðherra að næst eigi að sameina sveitarfélögin þannig að 8 þúsund manns séu á bak við hverja einingu? Og yrði slík sameining lögþvinguð eða frjáls? Það er mjög mikilvægt og gott að við ræðum þessi mál en ef þetta er vísbending um það sem koma skal þá er byrjað á skrýtnum stað ef fyrst á að búa til einingarnar í kringum þetta mál og málaflokk fatlaðra.

Vissulega mætti sameina fleiri sveitarfélög, það er alveg rétt. En ég tel að við þá vinnu þurfi að líta til samfélagsgerðarinnar, ekki bara til hausafjölda. Þegar um er að ræða ólík samfélög sem byggja á ólíkum atvinnuvegum er minna sem menn eiga sameiginlegt á því svæði og þess vegna ekki víst að sameining komi til með að skila miklu. Það er mín skoðun. Ég held að við eigum að horfa á þessa hluti svolítið upp á nýtt, ekki út frá hausatalningum heldur að horft sé til líkra samfélaga. Þá er miklu líklegra að íbúarnir sjálfir finni sig sem eina heild.