139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:24]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki fastmótaðar skoðanir á því hvort þessi skipting sé nákvæmlega sú sem eigi að leiða okkur áfram varðandi sameiningu sveitarfélaga. Hitt er alveg ljóst að þessi greining er byggð á landfræðilegum aðstæðum og þeim krítíska massa sem þarf til að standa undir fjölbreyttri þjónustu með þokkalega sjálfbærum hætti. Ég held að það megi og eigi að byggja fleiri þjónustuviðmið á sömu umdæmaskipan. Ég held t.d. að barnaverndarmálin séu augljós kostur, það þarf í það minnsta 1.500 íbúa að baki barnaverndarstarfi. Það er æskilegra að hafa svæðið stærra.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að við eigum að hugsa um sameiningu sveitarfélaga með opnum huga. Ég er ekki algerlega sannfærður um að aðeins eitt gildi að öllu leyti um alla verkþætti á vettvangi sveitarstjórnarstigsins. Er hægt að hugsa sér þetta á tvennan hátt? Geta flóknari verkefnin, félagsþjónustuverkefni og verkefni sem lúta að velferðarþjónustunni verið með þessum hætti en innan þeirra væru síðan smærri einingar þar sem sinnt væri afmörkuðum verkefnum, þó ekki væri annað en að hittast í bæjarstjórn eða hvað það nú væri? En ef við horfum á velferðarþjónustuverkefnin þá eru augljós rök fyrir því að í kringum þau sé ákveðinn krítískur massi af fólki og lágmarksfjöldi, 8 þúsund manns að teknu tilliti til landfræðilegra aðstæðna, sérstaklega í tilviki Vestmannaeyja og Hornafjarðar. Ég held að öll rök séu fyrir því að sömu umdæma- og mannfjöldaviðmið eigi við um barnaverndarmál, félagslega aðstoð eins og neyðaraðstoð og framfærsluaðstoð sveitarfélaga. Ég held að það væri hjálp í því að hafa fjölbreyttari stoðir undir slíkri aðstoð með stærri umdæmum.