139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo, eins og hv. þingmaður þekkir, að við glímum við alvarlega kreppu og skerum niður á öllum sviðum. Eins og hún hefur væntanlega tekið eftir er ekki gert ráð fyrir aukaframlögum til skóla nema nokkurrar rekstrarframlegðar vegna leigu á aukahúsnæði. Málið liggur ljóst fyrir. Beiðni um aukafjárveitingu fyrir árið 2010 hefur borist ráðuneytinu og fjárlaganefnd hefur í viðtölum við stofnanir fengið upplýsingar frá nánast hverri einustu skólastofnun í landinu. Engin þeirra fær framlag vegna kennslu í þessum aukafjárlögum, alla vega ekki við þessa umræðu. Hvað gerist milli 2. og 3. umr. get ég ekki sagt, við eigum eftir að taka þá umræðu, en ég get fullvissað hv. þingmann um að jafnræðis verði gætt á milli stofnana.

Til að útskýra málið aðeins betur þá stunda 1.100 Suðurnesjamenn nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem hefur beðið um að fá að taka fleiri nemendur inn og þurfti að hafna nemendum í haust. Skólinn fær heldur ekki aukaframlag ef við höldum okkur við Suðurnesin þannig að það er jafnt á komið með skólum í kreppunni. Jafnræðið birtist kannski fyrst og fremst í niðurskurðartillögunum og að ekki er gert ráð fyrir aukaframlagi fyrir nemendur sem ekki var vitað fyrir fram að kæmu í skólann við upphaf árs.