139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er mjög ánægð með eitt í hennar svari, þ.e. hún leggur mikla áherslu á að jafnræðis verði gætt við úthlutun fjármagns til menntastofnana. Það er akkúrat það sem kvartað hefur verið yfir í þessum skóla, Keili, að ekki sé gætt jafnræðis í fjárveitingum ef miðað er við háskólabrúna hjá Keili og sambærilegar námsbrautir eins og frumgreinadeildirnar við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Ég er mjög ánægð að heyra að jafnræðis verði gætt. Ég tók að sjálfsögðu eftir því að ekki voru lagðar til auknar fjárveitingar til einstakra skóla.

Hins vegar er ekki búið að ræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar um menntunarstig í öðrum landshlutum sérstaklega. Það var boðað og blásið til fundahalda á Reykjanesi og gefið í skyn að settur yrði aukinn kraftur í að bæta menntunarstöðu. Það gerist ekki bara með fínum og flottum fundum. Það gerist með því að styðja í verki við menntastofnanirnar. Að sjálfsögðu geri ég ekki lítið úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem hv. þingmaður nefndi í því samhengi, en það er akkúrat þetta sem Keilir fer fram á, að jafnræðis verði gætt.

Yfirlýsingar hv. formanns fjárlaganefndar vekja með mér von um að hægt verði að ná lendingu í þessu máli.