139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans hér og málefnalega nálgun á viðfangsefnið. Það er ætíð svo þegar hv. þingmaður leggur til málanna að á það hlustar maður.

Menn tala um mikilvægi þess að gæta aðhalds og ábyrgðar í rekstri fjármála ríkisins og þingmaðurinn var á þeim nótunum, og undir niðri í minnihlutaálitinu kemur fram að menn hafi kannski ekki náð þeim árangri sem að var stefnt í útgjöldum og þeim aðhaldsmarkmiðum sem stefnt var að. En öðrum þræði koma hér svo upp hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og kvarta sáran yfir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að ná árangri í ríkisfjármálum. Ýmist eru skattar hækkaðir of mikið eða á ranga aðila, ég man hér eftir umræðu um auðlegðarskatt eða afnám sjómannaafsláttar og svo mætti lengi telja, eða þá að niðurskurðurinn er of mikill, gengið er of hart fram gagnvart heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum, tilfærslum. Um leið kalla menn eftir aðgerðum í skuldavanda heimilanna og benda þar á ríkisstjórnina og kalla eftir útgjaldaaukningu af hálfu ríkisstjórnar.

Ég er ekki að segja að hv. þingmaður sé sekur um þetta háttalag, hann er samkvæmur sjálfum sér að miklu leyti, en mig langar að kalla eftir skoðunum hans á þessu og ég spyr: Erum við ekki öll sammála um að við þurfum að ná árangri í ríkisrekstrinum, að laga útgjöldin að tekjunum? Er það ekki sameiginlegt markmið okkar að reyna að hækka tekjurnar með einhverjum hætti og taka á útgjöldunum til þess að við náum árangri? (Gripið fram í.) Og þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvar sér hann leiðir til þess að ná betri árangri í stýringu útgjalda? Hvar mundi hann bera niður til þess að ná að laga útgjöldin að þeim tekjum sem við erum að afla?