139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að auðvitað verðum við ævinlega að hafa í huga hvaða afleiðingar aðgerðir okkar hafa hverju sinni, hvort of harkalega er gengið fram gagnvart einstökum aðilum í samfélaginu eða ekki.

Ég ítreka og bendi líka á, eins og hv. þingmaður Ásbjörn Óttarsson nefndi í síðara andsvari sínu, að við horfum lengra fram í tímann en til ársins 2011. Við horfum fram til ársins 2012 og til ársins 2013 þegar við ætlum okkur að vera búin að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Á það markmið eigum við að einblína umfram annað. Það er nauðsynlegt að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum, þ.e. að ná árangri sem þessum, ef við ætlum að byggja upp velferðarsamfélag og öryggi fyrir íbúa landsins. Það verður eingöngu tryggt með öruggri og traustri fjármálastjórn. Það mun breyta öllu í þeirri framtíð sem við eigum að horfa til. Það verður ekki gert ef við drögum á langinn þau verkefni sem verður hvort eð er að fara í. Þá er eins gott að gera það af þeim krafti sem við erum að gera og ætlum okkur að gera og standa við.

Varðandi þá tvo þætti sem þingmaðurinn hv. nefndi áðan og taldi að hefðu breytt öllu, söluna á Avens-bréfunum og minni vaxtagreiðslur, þá er ég ósammála því. Það sem ég reyndi að segja í ræðu minni áðan var að jafnvel þótt þeir þættir væru teknir út til hliðar, værum við samt að ná árangri. Þær aðgerðir sem við gripum til skiluðu árangri. Við værum auðvitað í verri stöðu. En hvað hefði gerst ef við hefðum ekki gripið til þeirra aðgerða sem við þó gerðum og skiluðu okkur meiri og betri árangri? Um það verður ekki deilt.