139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns fagna ég þeirri niðurstöðu sem náðst hefur í rekstri ríkissjóðs. Það var gert ráð fyrir að ríkissjóður yrði rekinn með 98 milljarða kr. halla á þessu ári. Niðurstaðan er hins vegar sú að hallinn verður um 58 milljarðar kr., sem er um 40 milljarða kr. viðsnúningur á rekstri ríkissjóðs. Það er gríðarlega ánægjulegt. Því til viðbótar ber að nefna að við höfum glímt við það í mörg ár að stofnanir fara umfram fjárheimildir í rekstri og þeim stofnunum hefur fækkað. Það er mjög jákvætt að þetta tvennt skuli gerast, annars vegar að hallinn sé mun minni en gert var ráð fyrir og hins vegar að mun færri stofnanir eru umfram fjárheimildir en verið hefur undanfarin ár. Það er mikilvægt að maður haldi því til haga sem vel gengur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur öll grein fyrir því þó að við sem störfum í fjárlaganefnd ættum að gera okkur betur grein fyrir því en aðrir, ekki það að ég sé að gera lítið úr störfum annarra þingmanna, það má ekki skilja það þannig, að það er fyrst og fremst tvennt sem veldur þessum góða bata. Annars vegar eru lægri vaxtagjöld hjá ríkissjóði upp á 24 milljarða kr. sem skýrist af þremur liðum aðallega, það er minna tekið af erlendum lánum, gengið hefur styrkst og síðan hefur Seðlabankinn keypt upp erlend skuldabréf. Það er annar stóri pósturinn upp á 24 milljarða kr.

Hinn pósturinn er sala eigna. Tvennt skýrir það sem skilar okkur um 19,5 milljörðum kr. í tekjuauka, annars vegar svokallað Avens-samkomulag sem var gert við Seðlabankann í Lúxemborg þar sem keypt voru svokölluð jöklabréf og hins vegar að við seldum sendiherrabústað upp á 1,7 milljarða kr. í London.

Það er hins vegar mjög mikilvægt út af því verkefni sem fram undan er að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að þetta tvennt ræður að stærstu leyti þeim viðsnúningi sem kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Af hverju er ég að ítreka þetta? Ég er ekki að gera það af neinni neikvæðni, ég er að benda á staðreyndir. Árið 2011 mun verða mjög erfitt eins og við höfum séð af fréttum undanfarinna daga í ljósi nýrrar hagspár þar sem verulega er dregið úr hagvexti sem mun kosta ríkissjóð 6, 8 eða jafnvel 10 milljarða kr. í tekjumissi. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins á reyndar eftir að greina okkur frá því hvað það mun þýða í raun og veru en þetta eru mjög stórar tölur. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar við tökumst á við vandamálin fram undan. Mín skoðun er alveg klár í því að við verðum að ná niður hallarekstri ríkissjóðs. Það verður ekkert hlaupist undan því verkefni. Síðan greinir okkur á um það hvernig við eigum að gera það. Við höfum lagt fram efnahagstillögur sjálfstæðismanna og teljum þær leiðir sem við viljum fara að sjálfsögðu skynsamlegri en stjórnarmeirihlutans. Það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni með það. Ég ætla ekki að fara inn í þá umræðu við þessi fjáraukalög. Ég mun frekar gera það við fjárlagafrumvarpið þegar við ræðum það.

Eigi að síður, þó að vel hafi tekist til við að ná utan um eins og ég sagði áðan að færri stofnanir eru reknar með halla eru samt þrjár enn þá sem verða klárlega með halla á árinu 2010, og 10 stofnanir til viðbótar hafa ekki skilað rekstraráætlunum og allt bendir til að þær verði ekki innan fjárlagaramma síns árið 2010.

Mig langar í framhaldi af þessu að nefna það að við gerð fjárlaga fyrir árið 2010, þ.e. fyrir tæpu ári, bentum við margoft á það hér, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og margir hverjir aðrir, að það væri innbyggður halli í fjárlögunum og þá væru menn að fresta vandanum og vildu ekki horfast í augu við hann. Það var eitt dæmi sem við nefndum sérstaklega. Ég ræddi það margoft og benti á það en mér var tjáð í þeirri umræðu að þetta væri ekki sanngjarnt og ekki rétt því að það mundi ganga eftir. Þetta var Landspítalinn. Ef við rifjum það aðeins upp var gerð krafa á árinu 2010 um niðurskurð á Landspítalanum upp á 3,2 milljarða kr. og síðan var hann með uppsafnaðan halla upp á 2,8 milljarða kr. Í raun og veru átti Landspítalinn að spara 6 milljarða kr. á árinu 2010. Þetta taldi ég ekki framkvæmanlegt nema þá að menn gæfu mjög skýr skilaboð um það frá heilbrigðisráðuneytinu að leggja niður einhverja ákveðna starfsemi til að draga úr þessum halla. Síðan kemur í ljós að heilbrigðisráðuneytið gerir samkomulag við Landspítalann um að frysta, eins og kallað er, þennan 2,8 milljarða kr. uppsafnaða halla. Forsendur fyrir því samkomulagi frá heilbrigðisráðuneytinu voru þá að Landspítalinn mundi halda sig innan fjárlaga á árinu 2010, þ.e. hann mundi þá spara um 3,2 milljarða kr. á þessu ári. Það hefur komið fram að undanförnu að Landspítalanum er að takast þetta ætlunarverk sitt og það er mikið fagnaðarefni. En ég bendi á þetta þannig að við sleppum því ekki oft og tíðum að horfast í augu við vandann og skilja eftir innbyggðan halla.

Síðan er það alveg klárt að þessi heimild heilbrigðisráðuneytisins er ólögleg samkvæmt fjárreiðulögunum. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því hvort þessi aðgerð sé skynsamleg eða ekki er þetta samt ekki heimilt. Við þurfum að fara eftir fjárlögum. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera það vegna þess að það er ekki hægt að fá athugasemdir frá Ríkisendurskoðun ár eftir ár um að það sé verið að brjóta fjárlögin. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar eins og ég sagði áðan að við þurfum að breyta þeim til þess einmitt að gera hluti sem þessa, þ.e. ef stofnanir standa sig vel og geta sýnt fram á að þær munu ráða við þann halla sem þær eru með er það mjög skynsamlegt. Við þyrftum að ganga í það hið fyrsta.

Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að 10 aðrar stofnanir eru ekki með samþykktar fjárhagsáætlanir inn í árið 2010 og það er akkúrat vegna þessara hluta. Þær eru með uppsafnaðan halla og það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir stofnanirnar að ráða við hann á einu ári. Ef við mundum hins vegar breyta fjárreiðulögunum væri hægt að gera samninga við viðkomandi stofnanir um að þær mættu vinna hann niður á lengri tíma. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við gerum það.

Það er líka mikið áhyggjuefni sem kemur fram í breytingartillögunum að tekjuskattur einstaklinga er 5,1 milljarði kr. minni en gert var ráð fyrir. Veltuskattarnir eru hins vegar margir hverjir að skila sér, sumir meira, aðrir minna, en helsta áhyggjumál mitt er að tekjuskattar einstaklinga dragast saman um 5,1 milljarð kr. Þetta finnst mér, virðulegi forseti, grafalvarlegt mál. Þetta er nefnilega þrátt fyrir að það er minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga 2010. Samt skila skattar sér ekki. Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér. Margir hæstv. ráðherrar hreykja sér af því að atvinnuleysið sé nú minna en reiknað var með og það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin skapi störf, um það er ekki deilt. Ég held hins vegar að skýringin á þessu sé sú að vinnumarkaðurinn er miklu sveigjanlegri en við reiknuðum með. Hvað hefur verið til að mynda í fréttum á undanförnum vikum og mánuðum um að í mörgum fyrirtækjum, bæði stærri og smærri, bæði í einkareknum og eins hjá ríkinu, er fólk tilbúið til að taka á sig lægra starfshlutfall, lægri laun til að verja heildarhagsmuni starfsfólksins? Það segir: Ég vil frekar skerða mín laun um 10% en láta fækka starfsmönnum um 10%. Ég held að þetta sé skýringin og ég held að það væri mjög gott fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliða að fara að átta sig á því að það er ekki vegna þess að þeir hafi skapað störf. Það hafa þeir alls ekki gert. Það þarf ekki að deila um það. (Gripið fram í.) Við deilum ekki, hæstv. utanríkisráðherra, um þann hluta.

Mig langar aðeins að koma inn á annað sem er mjög sláandi og væri mjög mikilvægt fyrir okkur að greina betur, þá lækkun sem á sér stað í bótaflokkum. Það er í raun og veru alveg heill frumskógur. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér ásamt öðrum hv. þingmönnum. Tekjufærslan inni í bótaflokkunum eru 6,2 milljarðar kr. en nettóniðurstaðan er tæpir 4 milljarðar kr. sem ríkið greiðir minna í bótaflokkana, þ.e. til elli- og örorkulífeyrisþega. Fyrir þessu eru margar ástæður, fjármagnstekjuskatturinn, nú er farið að ganga harðar gagnvart honum, hærri lífeyrisréttindi fólks og þar fram eftir götunum. Ég hef verið dálítið hugsi yfir forsendunni fyrir þessu. Það hefur reyndar komið í ljós að þetta var fært til félagsmálaráðuneytisins 2008 og síðan hafa menn einhvern veginn ekki náð utan um flokkinn. Þegar lagðar voru fram tekjuskerðingar á elli- og örorkulífeyrisþega reiknuðu menn með því að gera það með þeim hætti að það væri 4 milljörðum kr. minni skerðing. Það hlýtur að hafa verið hugsunin. Þess vegna leggjum við í 1. minni hluta mikla áherslu á að þetta verði skoðað sérstaklega og til að hnykkja á einu atriði til viðbótar, til að undirstrika hvað menn fálma út í myrkrið, er í einum liðnum gert ráð fyrir 373 millj. kr. greiðslum vistmanna á öldrunarstofnunum. Það er í fjárlögum 2010. Í breytingartillögunum er hins vegar gert ráð fyrir að þessi liður sé hækkaður um tæpa 600 millj. kr. En það stóðu 373, það er 140% hækkun. Það er mjög mikilvægt að það verði farið sérstaklega yfir þetta og það hygg ég að hv. fjárlaganefnd mundi gera og hefur þegar lagt fyrsta grunn að því en við höfum ekki náð að festa höndina á því hvað skýrir þennan svakalega halla.

Það sem líka kemur fram hér og er mjög sláandi miðað við hagvaxtarprósentuna og hagvaxtarspána fyrir árið 2010 og það sem gerist hér er að fjárfestingin dregst saman um tæp 20%. Við reiknuðum með aukningu upp á tæp 5% og niðurstaðan er rúmur 14% samdráttur. Þetta er minnsta fjárfesting á lýðveldistímanum. Hvað er það sem skapar hagvöxt, virðulegur forseti? Það er að sjálfsögðu geta fyrirtækja og heimila til að fjárfesta. Það liggur alveg klárt fyrir, ekki deilum við um það. Tekjuskattur einstaklinga er 5,1 milljarði kr. minni, oftekið tryggingagjald af fyrirtækjunum er 2,6 milljarðar kr. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, og hef af því áhyggjur þar sem ríkisvaldið tekur of mikið af tryggingagjaldi sem er mjög óheppilegt við núverandi aðstæður þegar þarf að fjárfesta, þegar fyrirtækin þurfa að hafa getu til að fjárfesta til að búa til hagvöxt. Þá eru teknir 2,6 milljarðar kr.

Ég teldi mjög skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að lækka tryggingagjaldið því að það er ekkert annað en skattur á atvinnu. Eftir því sem skatturinn er hærri, því minna svigrúm hafa fyrirtækin til að ráða til sín starfsfólk. Í ofanálag árétta ég það sem ég hef svo margsagt í þessum ræðustóli: Hvað er að gerast gagnvart fyrirtækjunum í landinu, bæði stórum og smáum? Það sem er að gerast þar er að fjármálastofnanirnar eru að hækka vaxtaálagið á fyrirtækjunum. Um hvað? Þær rúmlega tvöfalda það og ég hef séð dæmi um það. Til mín kom maður sem rekur fyrirtæki, hann er með öll sín lán í skilum, hefur alla tíð verið, og var með 2% vaxtaálag. Síðan er þessi fjármálastofnun búin að setja vaxtaálagið upp í 7%. Það ætti að vera álitamál fyrir Samkeppniseftirlitið að fara í þessa hluti, 7% segir allt sem segja þarf, á meðan fjármálastofnanirnar soga fjármagnið út úr fyrirtækjunum munu þau ekki geta fjárfest. Eru þetta hugsanlega þær vísbendingar sem við hefðum átt að sjá fyrir? Eins og ég sagði áðan hefur fjárfestingin dregist saman um tæp 20%. Þetta er hlutur sem menn verða að skoða og fara sérstaklega yfir. Fyrir utan það tel ég mjög skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að lækka tryggingagjaldið.

Ég get ekki sleppt því að minnast á einn þátt fyrst hæstv. utanríkisráðherra er hér, ég ætlaði ekki að minnast á það til að spara ræðutíma, það er þetta bruðl að kaupa sendiherrabústað fyrir 913 millj. kr. í London. Hins vegar verð ég að halda því til haga að utanríkisráðuneytið seldi reyndar bústað upp á 1,7 milljarða kr. þannig að það er hægt að segja að það sé verið að minnka kostnaðinn svo maður sé algjörlega sanngjarn. Ég hefði talið bara skynsamlegt að menn mundu þá frekar fjárfesta í húsnæði fyrir stofnanir á Íslandi en að gera það á þeim tíma sem erlendur gjaldeyrir er mjög dýr. Það er hægt að reka utanríkisþjónustuna, a.m.k. í þessu tilfelli, á mun hagkvæmari hátt. Það hefur komið í ljós að kostnaðurinn við að leigja á þessum tíma frá því að sá gamli var seldur og nýi keyptur er í kringum 20 millj. kr. á ári. Ég tel þetta algjört bruðl.

Síðan er eitt líka mjög bagalegt og um það verðum við að taka höndum saman, og eru kannski ekki miklar deilur um það í fjárlaganefnd, það er að koma skikki á framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldið tekur sér bara það vald sem því sýnist og við sjáum í fjáraukalögunum tvennt sem ég ætla að vekja sérstaklega athygli á. Annars vegar er efnahags- og viðskiptaráðuneytið, það er búið að ráðstafa núna um 200 millj. kr. á þessu ári án þess að hafa heimild frá Alþingi til að gera það og við erum að fara að samþykkja það hér eftir viku eða tvær, þ.e. í byrjun desember. Þegar búið er að ráða starfsfólkið, búið að eyða peningunum, eigum við að samþykkja það.

Hins vegar er hitt að m.a.s. hæstv. forsætisráðherra brýtur fjáraukalögin með því að gefa heimild til þjóðgarðsins á Þingvöllum um að ráðstafa af fjárlögum ársins 2011. Það er dálítið umhugsunarvert og þessu verðum við að breyta. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem sérstaklega er vakin athygli á því að forsætisráðuneytið brýtur lög. Þetta er algjörlega óviðunandi staða. Á þessu verðum við að taka og af því að hæstv. utanríkisráðherra er hér og segir að þegar aðra vanti í salinn svari hann fyrir þá, er þetta nokkuð sem gengur ekki lengur. Um þetta þarf ekki að vera pólitískur ágreiningur, þetta er eflaust búið að vera hér í mörg ár en þessu verðum við að breyta. Framkvæmdarvaldið gerir mjög lítið úr Alþingi með þessum háttum. Þó að Alþingi mundi vilja grípa inn í er það bara ekki hægt vegna þess að það er búið að eyða peningunum.

Eitt mikilvægt að lokum, virðulegi forseti, þar sem tími minn er á þrotum. (Utanrrh.: Þú getur talað aftur.) Já, kannski ég taki áskorun hæstv. ráðherra og tali aftur. (Utanrrh.: Þú ert svo helvíti fínn.) Já, já. Það sem er mjög mikilvægt að gera núna er að breyta svokölluðum mörkuðum tekjum og sértekjum stofnana. Þær verða allar að fara inn í ríkissjóð. Síðan ákvarðar Alþingi umfang og rekstur viðkomandi stofnana. Það er algjörlega óþolandi að mínu viti að núna á þessum erfiðu niðurskurðartímum skuli sumar stofnanir leika algjörlega lausum hala og fá jafnvel að bólgna út. Jafnvel stofnanir þar sem gerð er krafa um 9% niðurskurð bæta við sig. Meira að segja er eitt dæmi um stofnun sem bætir við sig 15,4% frá fjárlögum og fjáraukalögum, öllum heimildum Alþingis. Ef við náum ekki að setja markaðar tekjur og sértekjur inn í ríkissjóð, ákveða umsvif stofnunar á Alþingi og setja skýran ramma um það munum við ekki ná tökum á útgjaldastýringu ríkissjóðs. Það er ekki flóknara en það í mínum huga. Þetta eru hlutir sem verður að breyta og ættu ekki að þurfa að vera einhverjar pólitískar deilur um. Við ættum að einhenda okkur í þetta öll saman til þess að ná tökum á ríkissjóði sem er svo gríðarlega mikilvægt verkefni á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru.