139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni andsvarið. Ná árangri í niðurskurði? Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þarf að ná árangri í niðurskurði. En fyrst held ég að við verðum að gera okkur grein fyrir hver staðan er í heildinni. Ég rakti það í ræðu minni að við erum að fálma inn í eitthvert umhverfi sem við áttum okkur ekki almennilega á. Fyrst og fremst þurfum við að greina vandann. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég tel t.d. að það samstarf sem er í hv. fjárlaganefnd sé gríðarlega gott og við gætum sennilega, ef við hefðum skynsemi til þess að taka pólitíkina undan og ákveða að rífast ekki um hana. (Gripið fram í.) Það er aðallega stjórnarmeirihlutinn, svo ég svari hæstv. utanríkisráðherra strax, en auðvitað er það ekki þannig, virðulegi forseti. Ef við bara settumst niður værum við sennilega sammála í 95% tilfella.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um séreignarsparnaðinn. Þar greinir okkur á hvernig við viljum fara í þá vegferð. Við lögðum til að séreignarsparnaðurinn yrði nýttur og það lá alveg á borðinu. Að sjálfsögðu var það einskiptisaðgerð að taka þá 80 milljarða inn í ríkissjóð en á sama tíma lögðum við til að ekki yrði farið í neinar skattahækkanir. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann á móti af því að hann kemur aftur í andsvar: Hefur hann aldrei efast um það, sérstaklega í ljósi þess sem við horfum á núna, að skatttekjurnar eru að dragast saman? Við vorum að ræða fyrir nokkrum dögum síðan skattatillögur fyrir fjárlagaárið 2011, hvað er innbyggt þar? Tekjuskerðing á heimilin þar sem ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 9 milljarða, skuldir heimilanna hækka um 3 milljarða. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu, virðulegi forseti, og tel að við hefðum betur átt að fara þá leið sem við lögðum til, sjálfstæðismenn, í fyrra.