139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða milli okkar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar er komin út í ógöngur. Hv. þingmaður nefndi Landspítalann. Ég vék sérstaklega að því í ræðu minni áðan og fagnaði því að Landspítalinn væri að ná þeim árangri að vera innan fjárlaga ársins 2010. Ég fagnaði því sérstaklega, hældi stjórnendum Landspítalans og starfsfólki fyrir það, algerlega. Ég sagði hins vegar og benti á að það væri óraunhæft að gera 6 milljarða kröfu til hagræðingar á Landspítalanum. Ég var að benda á að það sem er gert hér og heilbrigðisráðuneytið gerði stenst ekki fjárreiðulög ríkisins og ég vil breyta því. Af hverju vil ég gera það? Vegna þess að þegar stofnanir sýna fram á árangur eigum við að virða það við þær. En við megum ekki gera það með því að fá ábendingar frá Ríkisendurskoðun um að það sé verið að brjóta lög. Það er það sem ég var að benda á, en ég fagnaði þessu sérstaklega.

Hvað varðar þær skattahækkanir sem hv. þingmaður nefndi hér. Hann miðaði hér við þjóðarframleiðslu. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, ef menn fara í svoleiðis útúrsnúninga? Það þýðir að gengið hefur fallið um hvað? helming á einu ári. Ætla menn þá að miða við þjóðarframleiðsluna og miða við það sem var fyrir og eftir gengishrun? Þessi umræða þarf nú kannski að vera dálítið dýpri og markvissari og þess vegna sagði ég áðan að umræðan væri komin út í ógöngur og það þurfum við að forðast. Það liggur alveg klárt fyrir að mínu mati, og ég vona svo sannarlega að hv. stjórnarliðar fari að kveikja á því, að það hefur verið gengið allt of langt fram í því að skattpína heimilin í landinu, það er búið að því og enn frekar á að bæta í. Hvað gerist? Fólk mun flýja land, það er alveg hreint og klárt. Það er þegar byrjað, því miður. Það sem þarf að fara að gera er að skapa fólkinu þannig umhverfi að það geti unnið og fengið vinnu. Það er alveg skýrt og ég er margbúinn að benda á þær aðferðir og aðgerðir sem þarf að gera til þess. Öðruvísi munum við ekki ná okkur út úr efnahagsvandanum. Við munum hvorki skera okkur niður úr honum né skattleggja okkur út úr honum, við þurfum að framleiða okkur út úr honum. Þar greinir okkur hv. þingmann greinilega á (Gripið fram í.) og ég held því miður að ég hafi réttara fyrir mér en hv. þingmaður.