139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér var flokksbróðir hv. þingmanns áðan að tala um að nauðsynlegt væri að draga úr fjárveitingum til að sinna málum Íslendinga á erlendri grundu, ég rifja það bara upp. Ég þekki hins vegar ekki þær reglur sem hv. þingmaður talar um sem gera það að verkum að við eigum með einhverjum hætti formlega aðkomu að því að móta gerðir eða tilskipanir. Við höfum að vísu rétt til að sitja í á þriðja hundrað nefndum, ef ég man rétt, þar sem við getum komið sjónarmiðum okkar á framfæri þegar málin koma frá framkvæmdastjórninni og fara í sinn feril. Nú er sá ferill gjörbreyttur frá því sem áður var. Okkar aðkoma, formleg sem óformleg, verður minni eftir því sem tímanum vindur fram, æ fleiri stórmál gjörbreytast í hinu nýja samráðsferli sem er komið upp innan Evrópusambandsins og lýtur að því að færa aukið vægi og völd til Evrópuþingsins. Þar höfum við enga formlega aðkomu.

Við eigum hins vegar kost á að beita því sem heitir á vondri íslensku „lobbýismi“. Yfirleitt eru hagsmunir Íslands bornir eins fram af öllum flokkum og það sem við ræddum á sínum tíma í Evrópunefndinni var að reyna að beita þeim tengslum sem flokkarnir hafa í gegnum mismunandi flokkahópa til að hafa áhrif innan þeirra. Ég er sannfærður um að það gæti haft áhrif, sérstaklega þegar um er að ræða gjörbreytingar á veigamiklum málum sem varða Ísland innan Evrópuþingsins. Ég er alveg viss um það. En það kostar peninga. Við getum reyndar lært margt af reynslu Norðmanna, hvernig þeir gera þetta, en það breytir ekki því að ef við ætlum raunverulega að hafa formlega aðkomu verður það bara gert innan Evrópusambandsins. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að á meðan við erum utan Evrópusambandsins og ef ekki verður samþykkt að ganga í Evrópusambandið eigum við að nýta allar smugur sem til eru til að verja hagsmuni Íslands þar. Það verður æ nauðsynlegra eftir því sem tíminn líður.