139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar var ég sammála hæstv. ráðherra, að þangað til og ef og vonandi ekki við förum inn í þetta blessaða Evrópusamband þá tel ég nefnilega afar mikilvægt að við nýtum þann samning, ég vil segja þann góða samning sem samningurinn við Evrópska efnahagssvæðið er, til að fá sem mest út úr honum og til að gæta hagsmuna okkar sem allra best. Ég óttast að vegna umsóknarinnar sé margt annað látið sitja á hakanum, þar með talin sú hagsmunagæsla, ekki af einhverjum illvilja í garð samningsins heldur einfaldlega vegna þess að þetta er mannaflsfrekt ef við getum sagt svo. Það eru aðeins ákveðið margir starfsmenn sem geta farið yfir þessi mál og þeir eru allir uppteknir við umsóknina.

Við ræddum, ég hvet hæstv. ráðherra og skal beita mér fyrir því að hann fái skýrsluna sem við unnum sameiginlega, einróma í utanríkismálanefnd á þeim tíma þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson var þar formaður, margar tillögur og einmitt þá tillögu sem hæstv. ráðherra nefnir varðandi tengslin inn í flokkahópana. Þar var það einmitt rætt og var lagt til að Alþingi hefði starfsmann, ekki í sendiráðinu í Brussel heldur á Evrópuþinginu sjálfu, til að aðgreina framkvæmdarvaldið frá löggjafarvaldinu og undirstrika sjálfstæði Alþingis í þeim efnum. Tillögurnar voru margar góðar. Við litum til þess hvernig Norðmenn náðu að taka gerðirnar fyrir þegar á mótunarstigi. Kannski er það ekki alltaf svo að við getum haft áhrif á gerðirnar en það er þó alla vega hægt að beita sér fyrir undanþágum við þau atriði sem eiga klárlega ekki við um okkur. Raforkulögin eru sí og æ nefnd til sögunnar sem dæmi. Ef við hefðum verið á vaktinni á sínum tíma hefðum við getað komið sjónarmiðum okkar á framfæri (Forseti hringir.) og sýnt fram á að þau ættu kannski ekki við hér vegna (Forseti hringir.) landfræðilegrar sérstöðu okkar.