139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breyt. á XX. viðauka við EES-samninginn.

236. mál
[17:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hæstv. utanríkisráðherra með því að ég ætla að hætta að hrósa honum. Mér þótti athyglisvert að í ræðunni, eftir að hafa reynt að gleðja mig með hverju atriðinu á fætur öðru í frumvarpinu, um hversu gott það væri, þá hætti hann að lesa þegar kom að því hvaða kostnaður fylgdi þessu. Ég ætla þá, með leyfi forseta, að leggja í púkkið og botna þetta fyrir hæstv. ráðherra. Eins og hann sagði er gert ráð fyrir að af þessu leiði mikil hagræðing og ávinningur. Það var ekki nefnt að aukinn útlagður kostnaður ríkissjóðs vegna innleiðingar er 39 millj. kr. á ári í fimm ár auk vinnuframlags innan ráðuneyta og stofnana sem er ekki ókeypis og er talið að muni nema allt að 80 millj. kr. á ári.

Hér segir líka, með leyfi forseta:

„Á sama fimm ára tímabili er áætlað að árlegur kostnaður sveitarfélaganna“ — sem eru ekki ofalin — „nemi 15 millj. kr. auk 30 millj. kr. innri kostnaðar.“ Sem mér leikur forvitni á að vita hvað er. — „Talið er að fjárhagslegur ávinningur af innleiðingu sé fimmfaldur útlagður kostnaður ef miðað er við mat annarra ríkja […]“. Svo kemur setningin sem hryggir mig mest í þessu: „[…] en hann mun koma fram síðar og ekki hjá sömu aðilum og verða fyrir kostnaði.“ Þannig að þarna er tekju- og eignatilfærsla sem hæstv. ráðherra ætlast til að ég fagni. Ég verð að hryggja hann með því að ég held að þetta þurfi að skoða aðeins betur.