139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breyt. á XX. viðauka við EES-samninginn.

236. mál
[18:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ómögulegt eftir allt sem við hæstv. utanríkisráðherra erum búin að vera sammála um að við þurfum að enda daginn á því að vera ósammála. Ég get alveg fullvissað hæstv. ráðherra um það að ég hef ferðast mikið í Evrópu og fundið fullt af skoðanasystkinum mínum þar úti um allt og sannarlega ekki of mörg. En við verðum ekki sammála um þetta.

Ég get líka sagt það hér að það er ekki fóbía hjá Sjálfstæðisflokknum að vera andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það hefur hingað til, og mun gera hér eftir, byggst á hagsmunamati. Við höfum farið í gegnum það hagsmunamat, við gerðum það fyrir hrun, við gerðum það eftir hrun og þetta er sú niðurstaða sem við höfum komist að. Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að virða það alveg eins og ég virði skoðun hans, þó að ég sé hjartanlega ósammála honum, á framtíðarskipulagi okkar í Evrópumálum.

Ég held við verðum ekki sammála um það hvort rödd okkar heyrist hærra í Evrópusambandinu. Það sem ég veit þó að við erum sammála um er það sem hæstv. ráðherra var að ítreka hér, að við eigum að nota þau tæki sem við höfum núna innan samningsins sem við erum aðilar að. Við erum ekkert á leiðinni inn í Evrópusambandið næstu árin a.m.k. jafnvel þótt draumur hæstv. ráðherra verði að veruleika. Það er því afar mikilvægt, og ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum, að hann leggi okkur lið og gefi þá pólitísku yfirlýsingu inn i sitt ráðuneyti, ef hann hefur ekki þegar gert það, að leggja krafta ráðuneytisins í að sinna samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vel. Það er það sem ég er að biðja um hér.