139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

setning neyðarlaga til varnar almannahag.

96. mál
[18:47]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni málflutninginn. Það er rétt að fram komi varðandi þessa afstöðu að almenn leiðrétting á skuldum heimilanna muni verða gríðarlega kostnaðarsöm og lenda á skattgreiðendum. Það er eitthvað sem við erum búin að fara í gegnum ansi oft. Út úr því kemur með ýmsum tilfæringum að verði sá afsláttur t.d. sem lífeyrissjóðirnir fengu í hinum svokallaða Avens-díl reiknaður þeim til tekna líka muni þetta kannski kosta lífeyrissjóðina eitthvað á bilinu 70–75 milljarða. Það hefur líka verið reiknað út að hægt væri að trappa það tap lífeyrissjóðanna í ákveðnum áföngum þannig að núverandi lífeyrisþegar mundu ekki finna fyrir því og að lífeyrisþegar framtíðarinnar fyndu sennilega fyrir því í mjög litlum mæli ef einhverjum. Þar að auki beita menn fyrir sig þeirri afstöðu að vilja frekar eiga húsnæðið sem þeir búa í nú en þurfa hugsanlega að skerða lífeyri sinn eftir 20 eða 30 ár um eitthvað örlítið. Það er afstaða sem við verðum líka að taka tillit til því að húseignir fólks eru yfirleitt helsta fjárfesting þess og helsti lífeyrir inn í framtíðina þegar upp er staðið. Það er mjög mikilvægt að fólk geti, ef það er hægt, haldið húsnæði sínu. Þess vegna tel ég að þessi almenna leið, flata leið, sé það mikilvæg að það verði að skoða hana af alvöru.

Eins og ég tæpti á áðan og minni á er ríkisstjórnarfundur í fyrramálið. (Gripið fram í.)