139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Flutningsmenn eru Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að breyta aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla þannig að heimspeki verði skyldufag. Kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til 8. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“ er lagt til að tryggt verði að heimspeki verði skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.“

Frú forseti. Það er hægt að halda langar ræður um ágæti þess að taka kennslu í heimspeki í meira mæli inn sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Sjálfur hef ég þá persónulegu reynslu af því eftir að hafa tekið nokkra heimspekiáfanga á háskólastigi að heimspeki er sú námsgrein sem kennir manni að hugsa betur og rökréttar en nokkur önnur grein og á alveg skilyrðislaust að vera jafnsett lestrarkunnáttu, ritfærni og stærðfræði hvað mikilvægi varðar. Heimspeki er þekkingarleit og kennir fólki rökfræði, gagnrýna hugsun, greinandi hugsun, skapandi hugsun, siðferðilega hugsun og agaða hugsun — atriði sem skipta meginmáli í þroska einstaklinganna og gera þá hæfari til að búa og taka þátt í lýðræðissamfélagi með skýra sýn og vitund um hvaða skyldur, hvaða ábyrgð og hvaða frelsi fylgir því.

Tillaga þessi fylgir í kjölfar þingsályktunartillagna þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en fékk ekki inni þar.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, 8. bindi, segir m.a., með leyfi forseta:

„Oft er sagt að erfitt sé að festa hendur á siðferðinu. Flestir kenna þó börnum sínum að rangt sé að meiða, stela og ljúga. Þessi grundvallaratriði mynda ávallt kjarna mannlegs siðferðis en þau geta tekið á sig flókna mynd í ýmsum aðstæðum lífsins, ekki síst þar sem um völd og fjármuni er að tefla eins og í stjórnmálum og viðskiptum. Siðfræði er gagnrýnin greining á siðferði og starfsháttum. […]

Á opinberum vettvangi þarf siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta viðmiðum um almannahagsmuni enda ber almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það er einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún metur gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snýst um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óháð því hvert það er. Siðferðileg hugsun hefur átt erfitt uppdráttar meðal annars vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hefur verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða býr í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það er eitt megineinkenni á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins.“

Frú forseti. Svo mörg voru þau orð. Einn af meginkostum heimspekinnar er að hún býr yfir aðferðum, vitsmunalegum verkfærum, eins og sumir kalla það, sem gera okkur kleift að öðlast dýpri skilning á síbreytilegum heimi. Heimspekin er klassísk og virkar alltaf en krefst ekki sífelldrar endurmenntunar til eltingar við nýjustu tískustrauma akademíunnar eða við nýjustu uppfærslur excel-töflureikna. Heimspekin ræktar sjálfstæða hugsun, rökræðu, virðingu fyrir sjónarmiðum annarra og það að hafa skynsemina að leiðarljósi.

Hér á landi hefur heimspekikennsla verið fremur brotakennd í framhaldsskólum og nánast óþekkt í grunnskólum. Áhugaverð tilraun með heimspekikennslu var gerð í Síðuskóla á Akureyri fyrir nokkrum árum, tilraun sem ætti í raun að liggja til grundvallar frekari kennslu í greininni.

Í skýrslu kennara um þá tilraun sagði m.a., með leyfi forseta:

„Það er ekki nokkur efi í hugum þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu að heimspekikennsla á heima í grunnskólum landsins. Heimspekikennsla styður mjög alla siðfræðiumræðu, eflir rökhugsun og þjálfar nemendur í að tala saman og virða skoðanir annarra.“

Nemendur voru spurðir hvort heimspekinámið hefði komið þeim til að hugsa skýrar eða óskýrar. Yfir 80% nemenda svöruðu því að heimspekin hefði komið þeim til að hugsa skýrar en 17,5% voru hlutlaus.

Svör nemenda voru m.a. eftirfarandi:

Ég fór að hugsa meira en áður um hlutina.

Hugsaði skýrar um mínar pælingar.

Mér hefur gengið betur að hugsa.

Kom mér til að hugsa skýrar og betur.

Maður þurfti að hugsa málið frá byrjun til enda.

Ég hugsa mikið meira um alla skapaða hluti en áður.

Eftir heimspekina fer maður oft að skilja hluti sem ég skildi ekki áður.

Ég lærði að rökstyðja.

Mér fannst ég geta verið meira með í umræðum.

Ég er ekki eins feiminn.

Ég get tjáð mig betur og hugleitt hlutina.

Athyglisvert er að lesa grein Hreins Pálssonar „Hagnýti og heimspeki“ um mikilvægi heimspekinnar út frá hagnýtissjónarmiðum en ofangreindri umfjöllun um heimspekikennslu í Síðuskóla er þar gerð góð skil.

Í lokaorðum vinnuhóps um siðferði og starfshætti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur m.a. fram að starfsháttum og siðferði var víða ábótavant í íslensku samfélagi og að sú staðreynd sé hluti af margþættum skýringum á því hve illa fór og að þetta eigi við jafnt í stjórnmálum og viðskiptalífi sem í stjórnsýslu og fjölmiðlum.

Þar segir m.a., með leyfi forseta, orðrétt:

„Af þessu má sjá að vandinn er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur. Skýrsla vinnuhópsins um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti er varasamt að einblína á þá. Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins.“

Frú forseti. Nú má Alþingi sjálft ekki skorast undan. Þessi tillaga kemur í beinu framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og Alþingi verður að leggja sitt af mörkum og tryggja til framtíðar eins og kostur er að borgarar landsins hafi öll þau bestu verkfæri sem til eru til að vera þátttakendur í því frjálslynda lýðræðissamfélagi sem við mærum svo mjög en eigum stundum erfitt með að nálgast. Slík samfélög eru nefnilega þau sem í gegnum tíðina hafa boðið upp á bestu aðstæður sem um getur út frá sjónarhóli mannréttinda og borgaralegra réttinda og eru almennt mannvænni en annars þekkist. Að því eigum við að stefna á Íslandi frekar en nokkru öðru.