139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Siðferði er einhvers konar innræting. Siðfræði sem heimspekin kennir aftur á móti er gagnrýnin greining á siðferði og kennir fólki í rauninni hvað siðferði er. Það er ekki þar með sagt að fólk fari eftir því sem því er sagt eða kennt en fólk þarf að hafa tæki og tól til að geta greint aðstæður hverju sinni út frá siðferðilegum viðmiðum. Ef menn hafa ekki þekkingu á siðferðilegum viðmiðum þegar ákvarðanir eru teknar þá geta þeir, eins og alþingismenn t.d., ekki tekið ákvörðun um hvort þeir eru að vinna að almannahag eða í þágu sérhagsmuna af því að siðferðilegu viðmiðin vantar.

Þetta er hægt að kenna. Það er hægt að kenna þessa greiningu. Ekki er hægt að skipa fólki að hegða sér samkvæmt því en það er hægt að kenna þetta og það skiptir svo miklu máli, ekki síst nú. Í gamla daga var fólk einfaldlega tekið á hnéð hjá afa og ömmu og var kennt siðferði. Það fjölskyldumynstur er gjörbreytt. Fjöldinn allur af fólki elst núna upp hjá einu foreldri eða engu foreldri eða í alls konar fjölskylduaðstæðum og kann jafnvel ekki að borða með hníf og gaffli þegar það er komið á fullorðinsár, sem dæmi um hvernig þjóðfélagið hefur breyst.

Þetta á við um siðferði líka. Fólk lærir ekki lengur grunngildin. Skólinn getur aldrei komið algerlega í staðinn fyrir fjölskylduna en heimspekikennsla getur kennt fólki hvar hugsunin ætti að liggja og hvernig greiningin ætti að fara fram. Þar held ég að við þurfum að taka stórt skref. Þess vegna leggjum við til einmitt svo umtalsverða kennslu í heimspeki.