139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vonast til að það stjórnlagaþing sem hefst á landinu okkar góða á næsta ári muni verða byggt á almennilegri rökhugsun og siðferðislegum viðmiðum. Ég hlakka persónulega mjög mikið til að sjá hvað kemur út úr stjórnlagaþinginu og sé það fyrir mér sem tilefni til að tala um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Af því tilefni langar mig að benda á hluta af greinargerðinni en í henni stendur:

„Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.“

Sú stjórnarskrá sem við erum með núna er ekki kennd í barnaskólum. Það veit enginn neitt um þessa stjórnarskrá, það las hana enginn nema einhverjir nördar áður en allt hrundi hérna, það er bara staðreynd, og það er ekki hægt að kaupa hana úti í búð. Hún fæst á netinu í einhverjum mismunandi útgáfum. Ég gerði tilraun með það, ég gúglaði stjórnarskrána og hlóð niður því fyrsta sem ég fann. Það var þá einhver bandvitlaus stjórnarskrá sem var búið að breyta. Samt gefur þessi stofnun fólki þær upplýsingar þegar það gagnrýnir að það geti ekki séð stjórnarskrá okkar að það eigi bara að finna hana á netinu.

Ég sé fyrir mér að nýja stjórnarskráin okkar gæti verið áfangi í heimspekinámi í bæði barnaskólum og á fyrstu stigum framhaldsskóla og að þar væri farið vel og rækilega ofan í hvernig fólk getur verið virkt sem ábyrgir samfélagsþegnar. Þegnar er reyndar dálítið ljótt orð.

Mér finnst svolítið skemmtilegt til þess að hugsa að strax í árdaga hrunsins fundaði ég með hópi fólks sem skoðaði mjög mikið þessa hluti. Við vorum ákaflega ánægð með að fá svona víðsýnan menntamálaráðherra þegar bráðabirgðastjórnin tók við. Ég veit að það fóru nokkrir aðilar til hæstv. núverandi menntamálaráðherra og lögðu til við hana að það yrði lagt í þá vegferð að byrja að kenna heimspeki í grunnskólanum. Ég nefndi það líka við hæstv. menntamálaráðherra á þeim tíma og hef spurt hana út í það. Hæstv. menntamálaráðherra tók mjög vel í það þegar það var nefnt einhvern tíma í febrúar 2009 og mér skilst að verið sé að vinna að því í menntamálaráðuneytinu þannig að tillaga okkar ætti alveg að geta fallið inn í þá vinnu sem nú er í gangi í menntamálaráðuneytinu. Það má segja að það sé einhvers konar stuðningsyfirlýsing við stefnu hæstv. menntamálaráðherra að taka tillit til þess hve mikilvægt það er að við lærum strax á barnsaldri að virða skoðanir hver annars, að við kunnum að rökræða án þess að taka því persónulega, eins og svo oft er gert hér á landi og sérstaklega í þessu húsi. Mér finnst vanta mjög mikið upp á að fólk virði skoðanir annarra. Þegar samfélagið er svona þrungið — af því að það er oft endurspeglun af samfélaginu sem hér kemur fram á dálítið ýktan hátt, verða svo oft til fordómar. Ég finn fyrir svo miklum fordómum hjá sumum gagnvart skoðunum annarra í samfélagi okkar.

Ég hef mikið skoðað heimspeki fyrir börn og ég man að fyrir nokkru datt í fangið á mér lítil bók sem heitir Heimspeki fyrir börn eftir Pál Skúlason. Ég var mjög þakklát fyrir það, eldri sonur minn var í námi í gagnfræðaskóla og þar var heimspekiáfangi. Hann ræddi um það við mig hvað það hefði hjálpað honum að skerpa á og hugsa hlutina frá upphafi til enda og að hugsa meira og í víðara samhengi. Það er eitthvað sem skortir mjög mikið á hjá okkur, að geta hugsað hlutina í stærra samhengi. Oft er ég að hugsa um okkur í alþjóðasamhengi og þá sé ég fyrir mér að við séum á taflborði. Það eru taflmenn á því en við erum með lúdókarla og spilum lúdó á taflborði af því að okkur skortir þær grunnstoðir sem koma frá því að finna hin siðferðislegu viðmið, við höfum ekki farið almennilega í þá vegferð. Þó svo að maður skynji, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á, af því að við ræðum um fólk sem púlar í sveita síns andlits og er ekki endilega langskólagengið, að það hefur mjög sterkan siðferðislegan grunn. En ég er ekki alveg sammála því að ef fólk menntast glati það þeim grunni.

Við þurfum að vinna út frá því sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar og ég mæli sérstaklega með því að fólk, ef það hefur ekki enn lesið 8. hefti, um siðferðið, að það kíki á það. Það hljómar kannski eins og klisja að tala um siðferði á Íslandi því að það virðist hafa gleymst sem einn grunnþáttur okkar þegar við skoðum hvernig hlutirnir þróuðust í aðdraganda hrunsins. En ég verð samt að segja að mér finnst þegar ég tala við fólk almennt um grunnstoðir samfélagsins er það mjög vel með á nótunum en það vantar verkfærin. Verkfærin liggja bæði í því að hjálpa fólki að hafa aðgengi að því að hugsa heildarmyndina og hugsa hvernig það getur verið virkari þátttakendur í samfélagi okkar. Það þarf að virkja þann þátt strax í bernsku, að fólk trúi því að það geti haft áhrif á samfélag sitt og að það sé sjálfsagður hlutur. Það er eitthvað sem mér var alls ekki innrætt þegar ég gekk skóla, ég held að börnum sé miklu frekar innrætt að gera bara eins og okkur er sagt og ekkert að vera að skipta okkur allt of mikið af, enda hafa verkfærin til þess, eins og þjóðaratkvæðagreiðslur og að geta kosið þá sem maður vill á þing, ekki verið færð upp í hendurnar á okkur. Í raun og veru má segja að það hangi allt mjög vel saman.

Ég vonast til þess að þingmenn geti veitt málinu brautargengi og það fljúgi í gegnum menntamálanefnd og verði að veruleika áður en langt um líður. Ég held að það væri frábært ef hægt væri að búa til námskrá fyrir grunnskólann út frá nýju stjórnarskránni okkar. Málið mundi kannski stranda eitthvað á því að þjálfa kennara til að kenna efnið eða að kennarar hafi grunn til að geta hafið strax kennslu á því efni. Það má kannski byrja með það í lífsleikni eða einhverju slíku. Það þarf líka að kenna fólki hvernig á að takast á við að verða hluti af samfélaginu. Mér hefur t.d. alltaf fundist mjög skrýtið að manni var ekki kennt hvað veðbönd eru eða hvernig maður á að fylla út skattaskýrslur og hvað það þýðir að borga skatta. Krakkar sem byrja að borga skatta 16 ára gamlir vita í raun og veru ekki hver hugsunin er á bak við það.

Mig langar að segja mjög stutta sögu frá því þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir mörgum árum síðan. Þá hneykslaðist ég mjög mikið á Svíum fyrir að borga í stöðumæla þegar það var stöðumælaverkfall þar. Síðan fór ég að hugsa út í það síðar að þeir hafa sennilega skilið að með því að svindla á því að borga væru þeir að svindla á sér. Það er eitthvað sem okkur skortir.