139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:33]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Þetta hefur verið um margt áhugaverð umræða þó að ekki hafi margir þingmenn verið á svæðinu til að taka þátt í henni. Það er vissulega rétt að aukin kennsla í heimspeki leysir ekki öll vandamál samfélagsins enda hef ég aldrei haldið því fram. En það er langtímamarkmið og næst með langtímaaðferðum í gegnum skólakerfið.

Vissulega er það svo að heimspeki lærist líka í gegnum aðrar námsgreinar, sérstaklega bókmenntafræði. Það er fjöldinn allur af heimspekingum sem hafa skrifað mikil ritverk og skáldverk þannig að oft er vandséð hvort um rithöfunda eða heimspekinga er að ræða sem velta upp alls konar álitamálum í bókmenntaverkum sem eru áhugaverð.

Ég sé fyrir mér að námsgreinarnar mundu að hluta til samþættast við aðrar greinar hvernig svo sem með það yrði farið. Hæstv. menntamálaráðherra hefur tjáð sig um þetta mál — hún ætlaði að vera við umræðuna en náði því ekki — en hún er hlynnt tillögunni og mun veita henni brautargengi ef hún verður samþykkt sem ályktun Alþingis og leggja sig fram um að koma þessu áfram inn í skólakerfið með einhverjum hætti. Vonandi ná þessar hugmyndir fram að ganga á endanum. Þær hafa hlotið mikinn hljómgrunn meðal þeirra sem þekkja til heimspeki. Það er ekki að ástæðulausu, menn vita einfaldlega hvaða fjársjóður getur búið í menntun og ritverkum sem þar er að finna. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi og vonandi fá fleiri að njóta þess. Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna sem hefur verið um málið.