139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

endurskoðun niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að hv. þingmaður sem hér er með fyrirspurn eigi við það að rúmlega 50% lækkun á árinu 2011 sé minni háttar breyting. Það kann að vera að hann eigi líka við að 30% lækkun til lengri tíma sé óveruleg breyting. Þar er ég bara ósammála hv. þingmanni. Hvort tveggja eru verulegar breytingar á því sem lagt var fram í frumvarpinu í samræmi við þá skoðun sem hefur átt sér stað og það sem komið hefur fram í umræðunni á milli þeirra aðila sem gert hafa athugasemdir og okkar sem höfum skoðað þetta í ráðuneytinu.

Þannig lítur þetta dæmi út, það verður væntanlega lagt fram í fjárlaganefnd í fyrramálið og kynnt þar. Síðan er það þingsins að taka ákvörðun um það hvert framhaldið verður, en ég held að við getum fullyrt að hér sé unnið samkvæmt lögum með heildstæðum tillögum, vandaðri yfirferð og boðað að það verði áfram farið með vönduðum hætti yfir þetta áður en farið er inn í næsta ár, 2012.