139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging á Bakka í Þingeyjarsýslum.

[15:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það eru 28 mánuðir eins og hv. þingmaður kom inn á síðan úrskurðað var um þetta mat. Gríðarlega margt hefur breyst á þeim tíma í verkefninu sjálfu. Það sem hefur gerst á þessum tíma er að þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið með, bæði af hálfu þeirra sem eru að hugsa um að kaupa orkuna og líka þeirra sem eru að fara að framleiða þessa orku, hafa breyst það mikið að þær eru orðnar talsvert fjarri því sem matið gengur út frá, þ.e. að 350 þús. tonna álver hefur ekki verið uppi á borði í þó nokkurn tíma. Þar að auki er alveg skýrt að framkvæmdaraðilinn, Landsvirkjun sem þarf að sækja þessa orku, er núna orðinn 93% eigandi auðlindanna á þessu svæði, ætlar sér auðvitað að ráðast þarna í sjálfbæra nýtingu og hefur sagt að ekki komi annað til greina en að selja orkuna í takt við það sem þarna kemur upp og á þeim hraða sem svæðið þolir.

Virðulegi forseti. Við erum mjög ánægð með að þetta mat sé komið. Þá liggur það fyrir og við getum haldið áfram með verkefnið. Þetta á ekki að setja þá stöðu sem við erum með verkefnið í núna neitt úr skorðum. Verkefnisstjórnin fyrir norðan er áfram starfandi, hún hefur skipt með sér verkum. Það eru fleiri mögulegir kaupendur komnir að borðinu en fyrir 28 mánuðum og af fleiri gerðum en eingöngu álframleiðendur. Núna hefur verkefnisstjórnin skipt með sér verkum þannig að orkuframleiðandinn, þ.e. Landsvirkjun, er kominn með samningamálin í sínar hendur og þarf að fá rými til að ganga til þeirra. Á meðan erum við hin, stjórnmálamennirnir og fólkið af svæðinu, að vinna að því að undirbúa samfélagið fyrir mikla atvinnuuppbyggingu og sömuleiðis að fara yfir möguleika á ívilnunum til handa þeim aðilum sem tilbúnir eru að (Forseti hringir.) fjárfesta á staðnum. Þetta breytir í engu áformum okkar eða setur stein í götu þessa verkefnis sem við erum núna í og á þeim stað sem við erum á.