139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þær tvær stærstu breytur sem koma fram í tekjugrein frumvarpsins eru annars vegar sala eigna og hins vegar skatttekjur almennt. Ég verð þó að lýsa sérstökum áhyggjum yfir því að tekjuskattur á einstaklinga dregst saman um 5,1 milljarð kr. sem undirstrikar að það er ekki hægt að skattpína þjóðina út úr þessum vanda. Ég vona að hv. stjórnarþingmenn fari nú loksins að kveikja á því. Það er alveg kristaltært. Ef þetta gefur þeim ekki algjörlega skýr skilaboð um það er lítil von um að menn opni augun og viðurkenni staðreyndir.

Í öðru lagi kemur líka fram að það sem ber uppi tekjuhlutann er annars vegar sala eigna, svokallað Avens-samkomulag á jöklabréfum við Seðlabankann í Lúxemborg, og hins vegar sala á sendiherrabústað. Ég tel mjög mikilvægt að hv. alþingismenn geri sér grein fyrir því hvað veldur þessum viðsnúningi því að ekki tóku þeir svo margir þátt í umræðunni um fjáraukalögin þegar hún fór fram.