139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

úttekt á samkeppnissjóðum á sviði vísinda og rannsókna.

165. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2010–2012 eru þrjú leiðarljós, samvinna og samnýting, í öðru lagi gæði og ávinningur og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Vísinda- og nýsköpunarstarf á Íslandi verður að standast alþjóðlegar gæðakröfur svo að árangur náist og raunveruleg og viðvarandi verðmæti skapist.“

Þriðja leiðarljósið er alþjóðleg vísindi og nýsköpun.

Ég held að við sjáum það á 10 ára reynslu Vísinda- og tækniráðs að það hefur sannarlega sannað tilvist sína. Ég held að það sé merkilegt tæki til þess að ýta undir rannsóknir, vísindi og þróun á Íslandi, ekki síst til langframa. Í þessari stefnu segir m.a. að það eigi að „forgangsraða með langtímauppbyggingu íslensks samfélags í huga“. Síðan segir að það eigi að skoða m.a. allt fram til ársins 2020. Með fullri virðingu fyrir því sem hér stendur þýðir ekki fyrir forsætisráðherra, sem m.a. er formaður Vísinda- og tækniráðs, að skrifa undir svona plagg ef raunveruleikinn er annar og við sjáum það m.a. í fjárlögunum. Það þýðir ekkert að abbast upp á hæstv. menntamálaráðherra í þessu ef fyrirheit ríkisstjórnarinnar og pólitískur vilji eru ekki til staðar til að styðja við menntamálaráðherra varðandi forgangsröðun í fjárlagagerð. Það er samt ekki spurningin hér núna.

Síðan segir í stefnu Vísinda- og tækniráðs að það eigi að skoða sérstaklega gæði rannsókna, leggja gæðahugsun til grundvallar, m.a. í vísinda- og nýsköpunarsamfélaginu sem hefur á síðustu árum byggst upp en það er „lykilforsenda þess að Íslendingar sæki hratt fram í alþjóðlegri samkeppni sem byggist á þekkingarsköpun“.

Einnig segir:

„Öll opinber fjármögnun vísinda og nýsköpunar verður að fara eftir skýrum reglum og byggjast á mati á gæðum og ávinningi.“

Þetta skiptir mjög miklu máli. Eins og plaggið ber með sér eru til nokkuð margir sjóðir en þeir eru ekki allir samkeppnissjóðir, hvað þá að þeir byggist á alþjóðlegum gæðakröfum því að enn erum við með að mínu mati leifar af ákveðinni fortíð varðandi úthlutun styrkja úr sjóðum landsmanna, ríkissjóðum, og ég er þá m.a. með AVS í huga, með fullri virðingu.

Síðan segir:

„Gera þarf úttekt á samkeppnissjóðum og meta hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu sjóða, hvort leggja beri einhverja þeirra niður, auka samstarf milli þeirra eða að stuðla að samfjármögnun einstakra verkefna sem sjóðirnir styrkja.“

Það skiptir miklu máli að fá að heyra hvaða skilaboð hæstv. forsætisráðherra, sem er einnig formaður Vísinda- og tækniráðs, hefur til vísinda- og fræðasamfélagsins en líka til landsmanna um það hvort raunverulegur vilji sé til þess, ekki bara að forgangsraða í þágu menntunar og nýsköpunar heldur ekki síður til þess að skoða hvernig megi (Forseti hringir.) gera hlutina betur á sviði samkeppnissjóða og hvort farið sé að gera þessa úttekt á samkeppnissjóðunum til þess að auka gæði innan þeirra.