139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

úttekt á samkeppnissjóðum á sviði vísinda og rannsókna.

165. mál
[16:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta á eftir óundirbúnum fyrirspurnum. Ég fór yfir það að ég saknaði þess að hæstv. forsætisráðherra væri ekki viðstödd í óundirbúnum fyrirspurnum því eftir helgina er búið að vera mikið um fréttir sem forvitnir stjórnarandstöðuþingmenn hefðu viljað spyrja hæstv. forsætisráðherra um. Þá bar til tíðinda að hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sagði að gefast mundi tími undir öðrum dagskrárliðum í þessari viku vonandi til að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Því nýti ég mér þetta einnar mínútu tækifæri til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún geti sagt okkur hver viðbrögð hennar séu við niðurstöðum stjórnlagaþingskosninga um helgina.