139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

áhrif flutnings málefna fatlaðra innan skólakerfisins.

63. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég geri mér grein fyrir því að eitt og annað sem tengist vinnu ráðuneytisins er háð því sem er að gerast í félagsmálaráðuneytinu. Við vitum að félagsmálaráðuneytið hefur því miður unnið þetta mál allt of hægt og verið lengi að átta sig á þeirri fyrirhuguðu breytingu sem verður núna um áramótin. En eins og ég hef sagt um það þá ætlum við öll að einbeita okkur að því að gera þennan málaflutning sem bestan úr garði.

Ég vil þakka ráðherra kærlega fyrir þau svör sem hún gaf mér. Ég tel svörin sýna fram á að ráðuneyti menntamála hefur verið nokkuð vel vakandi yfir þessum flutningi og í þá veru að reyna að styrkja þjónustu við fötluð börn innan skólakerfisins, reyna að tengja sveitarfélögin saman. Þó að frumkvæðið eigi vissulega líka að vera þeirra þá skiptir gríðarlega miklu máli að ráðuneytið fylgist með og reyni að hafa ákveðið frumkvæði í auknu samstarfi með það í huga að efla þjónustuna og lífsgæði barnanna innan skólakerfisins.

Ég vil í lokin hvetja hæstv. ráðherra til að halda þessu starfi áfram og ráðuneytin til að fylgjast vel með þessum flutningi. Það er margt sem á eftir að gerast. Endanlegt þjónustumat á eftir að koma fram í tengslum við löggjöfina og frumvarpið sem er í þinginu. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra eindregið til þess, ekki síst í ljósi þess að hann hefur fylgst vel með og er greinilega með á nótunum í tengslum við þennan flutning, að gera það áfram þannig að vel verði haldið utan um flutninginn á öllum málasviðum sem tengjast fötluðum.