139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

áhrif flutnings málefna fatlaðra innan skólakerfisins.

63. mál
[16:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það er feikilega mikilvægt að þessir flutningar gangi sem snurðulausast fyrir sig. Á síðustu árum hafa grunn- og leikskólar að mörgu leyti, og framhaldsskólar að sumu leyti líka, verið í fararbroddi þegar kemur að því að innleiða stefnu um skóla án aðgreiningar þar sem sérfræðiþjónustan er orðin hluti af daglegu starfi skólans. Ég held að það skipti feikilega miklu máli í þessum efnum.

Við þurfum hins vegar að fylgjast mjög vel með eins og hv. fyrirspyrjandi benti á. Við þurfum að fylgjast vel með þróun mála í þjónustumatinu. Áhersla okkar í þessum málaflokki, og þar erum við algerlega í takt við félags- og tryggingamálaráðuneytið, hefur verið sú að þessi ráðuneyti vinni vel saman og reyni sem mest að leggja saman krafta sína. Það er leiðarljós í þessum efnum.

Spurt var um reynslusveitarfélögin. Ég get því miður ekki upplýst hv. þingmann um það hvort um einhverjar beinar tillögur sé að ræða. Ég reikna hins vegar með að sú reynsla hafi m.a. skilað sér inn í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um þessar reglugerðir sem væntanlega byggir að einhverju leyti á reynslu þeirra en það er hins vegar sjálfsagt að kanna þau mál betur.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með flutningnum og hvernig hann snertir málefni fatlaðra barna á öllum skólastigum.