139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

kaup Ríkisútvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

149. mál
[16:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu efni. Það er rétt að um nokkurra mánaða skeið hefur verið unnið að endurskoðun þjónustusamnings við Ríkisútvarpið. Það eru nokkrar ástæður fyrir því en í fyrsta lagi verður að nefna að fjárveitingar hafa verið skornar niður til Ríkisútvarpsins eins og annarra stofnana á vegum hins opinbera. Því má segja að Ríkisútvarpið hafi ekki verið í stöðu til að uppfylla að öllu leyti þann þjónustusamning sem er í gildi því að hann gerir ráð fyrir hærra ríkisframlagi en nú er.

Í því samhengi má nefna útvarpsgjaldið sem nú myndar kannski aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins. Á haustmánuðum 2008 var fyrirkomulaginu breytt þannig að ekki var lengur um markaðan tekjustofn að ræða. Þetta hefur auðvitað breytt forsendum tekjustofns Ríkisútvarpsins ohf.

Önnur ástæða fyrir því að ráðist var í að endurskoða þjónustusamninginn var ekki bara breytt fjárframlög heldur var talin full þörf á að skerpa og skýra ýmis ákvæði samningsins til að taka af allan vafa um að allir aðilar túlkuðu ákvæðin á sambærilegan hátt. Hér er átt við stjórnvöld og Ríkisútvarpið en líka til að mynda sjálfstæða framleiðendur. Eins og hv. þingmann rekur kannski minni til var ágreiningur um það hvernig túlka bæri hugtakið sjálfstæður framleiðandi. Sá ágreiningur skilaði sér m.a. hingað í umræðum þegar við ræddum um það hvort talsetning á barnaefni teldist vera kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Það er alla vega ljóst að kvikmyndagerðarfólki fannst það ansi breið túlkun.

Síðan höfum við verið að skoða hugmyndafræði um eðli og hlutverk þjónustusamningsins milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf., hvernig við getum skerpt á henni því það skiptir mjög miklu að samningurinn virki þannig að RÚV uppfylli ákvæði samningsins og að mennta- og menningarmálaráðuneytinu sé gert auðvelt að hafa eftirlit með framkvæmd hans. Það hefur að sumu leyti breyst til batnaðar. Til að mynda mátti sjá í síðustu ársskýrslu Ríkisútvarpsins ohf. lista yfir það efni sem hefur verið keypt inn sem er nýlunda þannig að við höfum til að mynda betri yfirsýn yfir þennan lið.

Niðurskurðurinn breytti að sjálfsögðu fjárhagsforsendum upprunalega samningsins. Ég held að það skipti talsverðu máli að við skoðum þann tekjustofn sem við sjáum fyrir okkur að RÚV muni hafa og út frá því hvaða kröfur við getum lagt á herðar RÚV og líka tryggt þennan sameiginlega skilning.

Ég held hins vegar að til lengri tíma litið sé þörf á því að skerpa á því hvernig fjármögnun Ríkisútvarpsins verði háttað. Ég held að það skipti miklu máli að Ríkisútvarpið geti gert langtímaáætlanir og það er að sjálfsögðu erfitt þegar mörkunin hefur verið tekin af tekjustofninum. Í raun og veru virkar það þannig í reynd að Ríkisútvarpið er komið á fjárlög. Ég held að langtímaáætlanir séu hins vegar forsenda þess að Ríkisútvarpið geti uppfyllt ákvæði þjónustusamningsins til margra ára í senn. Ef við lítum til að mynda til Svíþjóðar og Noregs, þar sem eru opinber hlutafélög sem eru almannaútvörp, þá hafa þau lengri sýn í sínum samningum, ekki bara um þær áætlanir hvernig þau eigi að standa að þjónustu við almenning heldur líka fjárhagslega sýn.

Að sjálfsögðu þarf líka að huga að öðrum tekjum RÚV, skýra reglur um samstarf RÚV við önnur fyrirtæki á markaði, til að mynda í fjármögnun á öðrum verkefnum RÚV. Ég held að slík yfirferð sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir að óskýrar eða jafnvel mjög breytilegar fjárhagsforsendur Ríkisútvarpsins hafi grundvallandi áhrif á rekstur félagsins, og þar af leiðandi segi Ríkisútvarpið að það geti ekki uppfyllt einstök ákvæði þjónustusamningsins. Til framtíðar litið held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir okkar almannaútvarp að það hafi tekjugrunn til lengri tíma en það þarf líka að skerpa á þessum ákvæðum.

Hvað varðar þessi tilteknu mál, um kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum, því að ég hef kannski rætt þetta dálítið breitt, tel ég mjög mikilvægt að við höldum áfram þeirri þróun að kveðið sé á um það í þessum samningi að tiltekið hlutfall af efni sé keypt fyrir einhverja tiltekna fjárhæð, að það sé skýrt skilgreint hvað það merkir, hvað það felur í sér. Við munum því reikna með áframhaldi á þeirri hugmyndafræði sem lögð var til grundvallar í fyrsta þjónustusamningnum að teknu tilliti til þess sem ég hef rakið hér.