139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

kaup Ríkisútvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

149. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem ég get í stórum dráttum tekið heils hugar undir. Við þurfum að horfast í augu við málið eins og staðan er í dag. Ríkisútvarpið hefur þurft að búa við þrengri fjárhag eins og aðrar stofnanir og ekkert óeðlilegt við það. Það þarf að setja niður þjónustusamning í samræmi við það. Það má samt ekki sleppa Ríkisútvarpinu með aðhaldskröfuna annars vegar og kröfuna um að standa undir menningarhlutverkinu hins vegar. Það er m.a. fólgið í því að efla og styrkja íslenska kvikmynda- og sjónvarpsmyndagerð.

Langtímaáætlanir. Já, ég held að það sé bráðnauðsynlegt fyrir Ríkisútvarpið eins og margar aðrar stofnanir að sett verði upp langtímaáætlun þannig að menn geti séð fram í tímann hvaða kröfur þeir þurfi að uppfylla og á hvaða forsendum. Ég mun styðja ráðherra í því.

Ég held líka í tengslum við slíkan þjónustusamning og langtímaáætlun, en ekki síður í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið sem líka er rætt í þinginu, að við verðum að ræða á hvaða vettvangi Ríkisútvarpið á að afla sér tekna. Á Ríkisútvarpið að vera áfram svona umsvifamikið á auglýsingamarkaði? Á að takmarka það út frá tíma? Við höfum tekið þessa umræðu í hinum ýmsu hlutverkum áður. Á Ríkisútvarpið að vera í þeim mæli á auglýsingamarkaði sem það er núna? Við munum taka þessa umræðu.

Ég velti því líka upp í tengslum við þjónustusamninginn. Ef það eru erfiðleikar fólgnir í því að fá Ríkisútvarpið til að standa undir auknum umsvifum á sviði sjálfstæðrar framleiðslu, þ.e. kaupum á íslensku efni frá sjálfstæðum framleiðendum, er þá ekki önnur leið sem við eigum að skoða og efla enn frekar samkeppnissjónvarpssjóðinn og beina heldur hluta fjármagnsins í þann sjóð (Forseti hringir.) en að setja hann beint til Ríkisútvarpsins ef það uppfyllir ekki skyldur og kröfur sem eru settar fram í þjónustusamningnum?