139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins á faglegu háskólastarfi.

66. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að svar mitt sé nei í báðum tilfellum. Ég er ekki alveg sammála því að svarið sé nei. Ráðuneytið framkvæmir gæðaúttektir og eftirlit til að mynda, þ.e. lætur erlenda aðila gera það. Nú er það komið alfarið í hendur óháðra erlendra aðila og þar er auðvitað haft eftirlit með þeim þáttum sem snerta akademískt frelsi.

Að sama skapi sagði ég að við stefnum að því þegar niðurskurðartillögur eru kynntar að þær komi ekki niður á gæðum. Svar mitt er kannski það að ég get ekki sagt 100% já, að þetta sé alltaf svona. Ég verð að vera heiðarleg með það en ég held að þetta sé hins vegar mál sem alltaf er dálítið erfitt að segja afgerandi já við, að minnsta kosti þegar maður skoðar umræðu annars staðar frá. Það virðist því miður koma oft upp í erlendu og alþjóðlegu háskólaumhverfi að rannsóknarfrelsið sé ekki virkt og að skoðanir háskólamanna og háskólakennara komi niður á þeim í starfi. Það er ekki aðeins innan tiltekinna háskóla því ef við skoðum sögu háskólanna frá því að háskólarnir verða hluti af þjóðríkinu, verða hluti af valdastofnunum samfélagsins, þá höfum við mörg dæmi um það að ríkisvald víða um heim reyni að hafa afskipti af háskólum. Hérna erum við því að ræða ákveðið eilífðarmál.

Okkar markmið er hins vegar auðvitað að reyna gera þetta sem best. Ég held að með því til að mynda að færa gæðaeftirlitið til óháðs aðila náum við árangri að einhverju leyti og með því að endurskoða löggjöfina. Ég legg mikla áherslu á að við breytum henni þannig að þetta verði tryggt í íslenskum lögum sem það er ekki nú. Ég held því að svarið sé kannski blendið. Við erum að reyna að gera okkar besta í þessum efnum en við teljum líka að við getum gert betur.