139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

staðbundnir fjölmiðlar.

225. mál
[16:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um leið og ég tek undir árnaðaróskir hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar til hæstv. menntamálaráðherra vil ég lýsa þeirri skoðun minni að staðbundnir fjölmiðlar séu algerlega nauðsynlegir. Með ákveðnum hætti er það verkefni hins opinbera að sjá til þess að þeir séu til og þrífist hver á sínum stað. Þeir eru þáttur í verslun og viðskiptum, í lýðræði, í sögu og menningu og í sjálfsmynd þeirra staða sem þeir spretta úr. Það skiptir miklu máli og meira máli en ýmis önnur byggðatilvik að þeir séu á lífi. Þetta á ekki bara við fjölmiðla á landsbyggðinni heldur líka fjölmiðla sem sprottið hafa upp undanfarin ár í þéttbýlinu á Suðvesturlandi, t.d. í einstökum hverfum í Reykjavík. Þar eru merkilegir fjölmiðlar sem segja margt um sína byggð og eru henni mjög mikilvægir.

Sjálfur er ég áskrifandi að staðbundnum fjölmiðli (Forseti hringir.) frá Svarfaðardal, mjög merkur fjölmiðill, elsti fjölmiðillinn af þessu tagi núna, og þó ég hafi (Forseti hringir.) engin eiginleg tengsl við héraðið nýt ég þess að fræðast um ástandið á þeim slóðum.