139. löggjafarþing — 38. fundur,  29. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem er mjög mikilvæg því að það er hætta á þessi dómur muni hafa mjög afgerandi áhrif. Ég tel þó að það frumvarp sem hér er til umræðu verði ekki fyrir áhrifum af þessum dómi. Dómurinn fjallar fyrst og fremst um nauðasamning til greiðsluaðlögunar en ekki frjálsu samningana. Ég held að það sé fyllilega á sínum stað að nefndin taki málið inn á milli 2. og 3. umr., ekki til að gera breytingar á því nema í ljós komi að slíkt sé nauðsynlegt, sem ég tel ekki að vera, heldur til þess að vita með hvaða hætti efnahags- og viðskiptaráðuneytið, sem lögin um ábyrgðarmenn heyra undir, hyggst taka á afleiðingum dómsins fyrir löggjöfina.

Nú er ljóst að það liggur á að frumvarpið verði að lögum, ef svo verður, því að námsmenn sem ekki fá fyrirgreiðslu í sínum viðskiptabönkum eru að lenda í vandræðum, það er mjög hindrandi fyrir þá að hafa ekki framfærslueyri. Eins er mikilvægt að fólk sem er að fá frest á greiðslum af því að það er að bíða eftir samþykki greiðsluaðlögunar geti fengið að selja eignir fái það hagstætt tilboð í eignina. Við höfum fengið margar ábendingar um það í nefndinni að mikilvægt sé að klára þetta mál sem fyrst.

Ég tel þó fyllilega eðlilegt að nefndin ljúki þessu máli ekki fyrr en við höfum fengið upplýsingar um það á milli 2. og 3. umr. í hvaða veru þær breytingar eru sem nauðsynlegt er að gera á lögunum í kjölfar dómsins um ábyrgðarmenn og hvernig þær verði unnar.