139. löggjafarþing — 38. fundur,  29. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að bæta en ég vildi þó koma upp til að árétta að þó að þessi dómur setji ákveðið strik í reikninginn við framkvæmd laga um greiðsluaðlögun þá er það að því er lýtur að dómsúrræðum. Vonir stóðu til þess í nefndinni þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma að sem mest af greiðsluaðlögunarumsóknum enduðu sem samningar um frjálsa greiðsluaðlögun. Innan þeirra ramma er auðvelt að gera sérstaka samninga um stöðu ábyrgðarmanna og lánsveðhafa og umboðsmaður skuldara hefur þegar rætt við umsjónarmenn um að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að þeir þurfi að horfa sérstaklega til þess í samningagerð sinni.

Við munum fá aðeins skýrari mynd af málinu á milli 2. og 3. umr. og tryggja að við séum ekki að ganga gegn stjórnarskránni með þessu frumvarpi því að það vill jú enginn okkar hv. þingmanna.