139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hefði áhuga á að heyra álit hv. þm. Lilju Mósesdóttur á þróun mála varðandi skuldastöðu bæði Íslands og íslensks almennings.

Það var mikið rætt um skuldatryggingarálag í fyrra og því var haldið fram að ef Íslendingar bættu ekki á sig verulegum skuldum, tækju meiri lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum, Bretum og Hollendingum og hinum og þessum, mundi skuldatryggingarálagið okkar hækka og staða okkar versna. Svona var málflutningurinn, frú forseti.

Hvað hefur síðan gerst? Skuldatryggingarálag Íslands hefur lækkað jafnt og þétt. Og nú gerðist það, í gær eða fyrradag held ég, að Spánn fór fram úr Íslandi. Það er orðið dýrara að tryggja skuldir spænska ríkisins en Íslands. Ísland er orðið traustari lántaki en Spánn. Grikkland, Írland, Portúgal og önnur lönd eru löngu farin fram úr Íslandi hvað þetta varðar. Það virðist vera að þrátt fyrir allt sé hér staða til að vinna úr. En það er þá grundvallaratriði að komið sé til móts við heimilin, og íslensk fyrirtæki reyndar líka, í skuldamálum vegna þess að vandi Íslands, hvort heldur er ríkisins, heimilanna eða fyrirtækjanna, hefur verið skuldavandi. Íslenska ríkið er í aðstöðu til að taka á sínum vanda en við verðum líka að gefa heimilunum tækifæri til þess. Gerist það ekki bitnar það á ríkinu á endanum.

Það er mikið búið að fjalla um miklar afskriftir skulda fyrirtækja og setja í samhengi við stöðu heimilanna. Afskriftir skulda hjá fyrirtækjum eru réttlættar með því að þessir peningar séu tapaðir, verði ekki ráðist í afskriftir fari fyrirtækin einfaldlega á hausinn. En má ekki halda því fram að vandi heimilanna sé það víðtækur að hið sama eigi við um þau? Ef ekki verði ráðist (Forseti hringir.) í niðurfærslu þar fari svo stór hluti heimilanna á hausinn að það skaði ekki bara heimilin heldur hagkerfið allt.