139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spyr hvaða áhrif miklar skuldir fyrirtækja, heimila og ríkissjóðs muni hafa á lánshæfismatið. Ég hef ásamt mörgum öðrum haft áhyggjur af skuldsetningu þjóðarbúsins og vil geta þess að niðurskurðurinn eykur þessa skuldsetningu vegna þess að þegar við skerum niður minnkar veltan og störfum fækkar sem þýðir minni verga landsframleiðslu sem síðan þýðir að skuldir aukast og hallinn sem hlutfall af vergri landsframleiðslu líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þegar fyrirtækin sjá það lækka þau lánshæfismatið og hækka skuldatryggingarálagið. Ég vara eindregið við því að við förum í frekari niðurskurð og jafnframt hvet ég til þess að við tökum á skuldavanda, ekki bara heimila heldur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ég óttast að upp úr muni sjóða fljótlega. Skuldsett heimili upplifa núna mikið óréttlæti í kjölfar bankahrunsins og margir finna fyrir því að greiðsluvilji heimilanna þverr dag frá degi.

Við höfum aldrei áður séð jafnmikil vanskil í bankakerfinu þrátt fyrir ótal skuldaúrræði fyrir þá sem eru verst settir og hvatningu til skuldsettra heimila um að nota framtíðarlífeyrissparnað sinn til að greiða niður lán, lán sem eru í raun og veru að hluta til töpuð en bankakerfið hefur ekki fengist til að afskrifa.

Auk þess sjáum við dæmi um að fjármálastofnanir taka í vaxandi mæli að sér hlutverk velferðarstofnana með því að veita (Forseti hringir.) einstaklingum sem svo sannarlega þurfa á því að halda það sem ég vil kalla ölmusuafskriftir.